Ekki gráta Björn bónda.

Greinar

Bíleigendur náðu ekki árangri í mótmælum sínum í gær. Þáttakan í akstursföstunni var of lítil. Í Reykjavík minnkaði umferðin aðeins um þriðjung. Það dugar ekki til að hræða stjórnvöldin.

Ef svo sem helmingi fleiri bíleigendur hefðu tekið þátt í föstunni, væri annað uppi á teningnum. Þá hefðu stjórnvöld túlkað aðgerðina sem áfellisdóm og mundu hugsanlega taka tillit til hennar við næstu ákvarðanir um bensínverð.

Það hefur hins vegar einfaldlega komið í ljós, að bíleigendur eru ekki nógu reiðir. Þeir eru ekki nógu reiðir til að taka á sig umtalsverð óþægindi til stuðnings málstaðnum. Og stjórnvöld munu ekki meta þá niðurstöðu bíleigendum í hag.

Þáttakan í flautinu í fyrrakvöld var mikil. En við verðum að viðurkenna, að það er létt verk og löðurmannlegt að hlaupa út í bíl til að flauta í tvær mínútur. Það er dæmigerð aðgerð hins þögla og um leið áhrifalausa meirihluta.

Það þarf meiri reiði og meiri atorku til að skilja bílinn eftir heima heilan dag. Ekki sízt í hvassviðri, sem veldur því, að erfitt er að hjóla til vinnu og leiðinlegt að ganga. En menn notuðu sér ekki einu sinni strætisvagnana til fulls.

Eftir gærdaginn munu ráðamenn þjóðarinnar ekki telja mikla hættu stafa af bíleigendum sem þrýstihópi. Bensín mun því halda áfram að hækka og ríkið mun auka gróða sinn af bensínokri. Alltaf verður eitthvað, sem ráðamenn þykjast þurfa að niðurgreiða.

Sumum landsfeðrum mun vafalaust finnast þetta koma sér vel á tímum stórlega skerts gróða af sölu áfengra drykkja. Þar hafa þeir neyðzt til að fresta verðhækkunum í langan tíma af ótta við enn frekari samdrátt í viðskiptum.

Bíleigendur náðu á föstu þeirra í gær ekki sama árangri og áfengisneytendur hafa náð á nærri níu mánaða föstu. Félag íslenzkra bifreiðaeigenda beið hálfan ósigur í bardaganum, hvernig svo sem stríðið fer að lokum.

Samtökin tóku áhættu, sem var eðlileg. Vogun vinnur, vogun tapar. Menn geta alltaf verið vitrir eftir á og sagt, að heppilegri hefði verið aðgerð, sem hefði gert minni kröfur til bíleigenda. En slík aðgerð hefði líka orðið áhrifaminni en vel heppnuð akstursfasta.

Enginn sigur vinnst án fyrirhafnar. Tveir þriðju hlutar bíleigenda spöruðu sér fyrirhöfnina í gær. Þeir munu í framtíðinni uppskera eins og þeir sáðu í gær. Og hinir, sem þátt tóku, munu líða fyrir aðgerðaleysi meirihlutans.

Margir stóðu sig vel í gær og lögðu á sig mikla fyrirhöfn í þágu málstaðarins. En enginn má við margnum. Og auðvitað hljóta föstumenn að vera dálítið gramir værukærum félögum sínum í þrýstihópi bíleigenda.

Ekki er öll nótt úti, þótt ráðamenn þjóðarinnar beri sig vel eftir gærdaginn. Þeir kunna að ofmeta, hversu værukærir bileigendur séu. Félag íslenzkra bifreiðaeigenda kann að finna nýja leið, sem samræmist betur áhuga bíleigenda.

Kannski væri unnt að snúa hálfum ósigri í hálfan sigur með því til dæmis að stöðva umferð í svo sem tíu mínútur á annatíma. Gallinn er bara sá, að svinghjól stemmningarinnar er ekki í gangi eftir gærdaginn.

Áhugamenn meðal bíleigenda um lækkun hlutar ríkisins í bensínverði og um betri vegi á landinu verða að meta stöðuna næstu daga. Mættu þeir þá minnast Ólafar, sem ekki vildi gráta Björn bónda, heldur safna liði.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið