Ekki enn fallin

Greinar

Oft hefur verið hrópað “úlfur, úlfur” í spám manna um lífdaga ríkisstjórnarinnar. Nógu oft til þess, að fólk er hætt að trúa, þótt nú sé enn einu sinni sagt, að ríkisstjórnin sé fallin.

Óneitanlega er hún núna nær því að falla en nokkru sinni áður. Forsætisráðherra neyðist til að leggja efnahagsmálin fyrir alþingi sem sitt eigið frumvarp, ekki frumvarp ríkisstjórnarinnar.

Í dag lítur svo út, sem frumvarpið muni aðeins njóta stuðnings minnihluta á alþingi, þingmanna Framsóknarflokks og Alþýðuflokks. Alþýðubandalag og Sjálfstæðisflokkur geta ekki fallizt á frumvarpið.

En málið er ekki svona einfalt. Frumvarpið verður væntanlega borið upp á Alþingi lið fyrir lið. Þá hlýtur Alþýðubandalagið að fallast á alla liði þess nema verðbótakaflann.

Þar við bætist, að Sjálfstæðisflokkurinn getur fallizt á suma liði þess, til dæmis hugsanlega verðbótakaflann. Það er því ekki óhugsandi að frumvarpið nái fram að ganga í heild. Hinn möguleikinn er sá, að verðbótakaflinn einn verði felldur.

Sennilega mundi það duga ríkisstjórninni betur til framhaldslífs, að Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði verðbótakaflanum. Erfitt er að sjá, að Alþýðubandalagið geti setið áfram í ríkisstjórn á verðbótakafla, sem knúinn hefur verið í gegn með atkvæðum Sjálfstæðisflokksins.

Í hamagangi síðustu daga hefur komið í ljós djúpstæður klofningur i Alþýðubandalaginu milli ráðherra þess annars vegar og Lúðvíks Jósepssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar hins vegar. Þar hafa hinir síðarnefndu reynzt sterkari vængurinn.

Hvað eftir annað hafa ráðherrar Alþýðubandalagsins sýnt sáttfýsi í ríkisstjórninni. Hvað eftir annað hefur flokkur þeirra síðan rekið þá öfuga til baka með ný fyrirmæli.

Þyngstu sporin gengu ráðherrar Alþýðubandalagsins í gær, þegar þeir voru sendir af fundi framkvæmdastjórnar, þingflokks og verkalýðsmálaráðs flokksins á ríkisstjórnarfund til að lýsa algerri andstöðu við verð- bótakaflann, sem þeim hafði láðst að gera fyrirvara um á fundum ríkisstjórnarinnar um helgina.

Enn er mögulegt, að stjórnarflokkarnir nái með sér samkomalagi um þennan kafla á næstu dögum, áður en til atkvæðagreiðslu kemur á þingi. Þar með gæti ríkisstjórnin verið áfram við völd, – um sinn.

Ekki er líklegt, að Sjálfstæðisflokkur vilji hefja viðræður við Framsóknarflokk og Alþýðuflokk um myndun nýs meirihluta á alþingi. Miklu trúlegra er, að flokkurinn sækist eftir nýjum kosningum.

Lúðvik Jósepsson og sterki armurinn í Alþýðubandalaginu eru einnig óhræddir við kosningar. Þar af leiðandi er spurningin sú, hvort Framsóknarflokkurinn og einkum Alþýðuflokkurinn leggi út í kosningar einmitt núna.

Þessir flokkar hafa verið að tapa fylgi að undanförnu. Raunar má segja, að flótti sé brostinn i kjósendalið Alþýðuflokksins. Þess vegna mætti ætla, að flokkurinn reyndi fremur að semja, en standa andspænis nýjum kosningum.

Dæmið er einnig unnt að hugsa á hinn veginn. Ráðamenn Alþýðuflokksins gætu hugsað sem svo, að síðbúin festa flokksins gæti endurheimt kjósendur, sem studdu flokkinn í síðustu kosningum.

Á þessu stigi er aðeins unnt að hugleiða möguleikana, eins og hér hefur verið gert. Hreina spá er ekki unnt að leggja fram. En ljóst er þó, að ríkisstjórnin þarf ekki að vera fallin, þótt hún hangi núna aðallega saman á ósamlyndinu!

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið