Ekki alvond?

Greinar

Menn eiga að geta treyst því, að ekkert í mannlífinu sé alveg hvítt eða alveg svart, heldur aðeins mismunandi grátt. Enginn sé algóður og enginn alvondur. En því miður gefur ríkisstjórnin tilefni til að halda, að þessu algildu sannindi standist ekki.

Merkilegt er að rekja allt það, sem hlutlausir aðilar hafa ráðlagt núverandi ríkisstjórn á þriggja og hálfs árs ferli hennar. Hún hefur ekki tekið hið minnsta mark á neinum þeim ráðum, enda hefur hún sína eigin sérfræðinga, sem segja henni það, sem hún vill heyra.

Ríkisstjórninni hefur verið ráðlagt að vernda í fullri alvöru þorskstofninn í sjónum. Henni hefur verið ráðlagt að auka ekki hlutdeild ríkisins í þjóðarkökunni á kostnað almennings og atvinnuvega. Henni hefur verið ráðlagt að kasta ekki peningum á glæ landbúnaðar.

Ríkisstjórninni hefur verið ráðlagt að semja ekki við ríkisstarfsmenn um mun meiri launahækkanir en atvinnuvegirnir höfðu gert. Henni hefur verið ráðlagt að þjónusta ekki gæðinga sína með kaupum á Víðishúsi og öðrum slíkum glæpum. Henni hefur verið ráðlagt að binda börnum okkar ekki skuldabagga á herðar.

Hin ótrúlega lélega og sjálfumglaða ríkisstjórn hefur ekki tekið mark á neinu þessu, né fjölda annarra hliðstæðra atriða. Svo furðar hún sig á, hversu illa þjóðarhag er komið!

Hún lætur sérfræðinga sína henda fimm bráðabirgðalausnum í verðbólgunefnd, þar sem sitja fulltrúar voldugustu hagsmunahópa landsins. Allar eru þessar lausnir vondir kostir, en fela þó í sér tilraun til að stilla þrýstihópum upp við vegg.

Ekki tekst þetta þó betur til en svo, að samtök launþega sjá strax, að ætlunin er að láta launþega borga brúsann. Þremur mánuðum eftir að ríkisstjórnin er sjálf búin að sprengja upp verðlagið með samningum við ríkisstarfsmenn, ætlar hún að taka allt til baka.

Svona ganga kaupin ekki á eyrinni. Launþegasamtökin munu ekki sætta sig við bráðabirgðalausnir ríkisstjórnarinnar og eru þar í fullum rétti. Viðbrögðin benda líka til þess, að nýjar vinnudeilur séu á næsta leiti.

Í sjálfu sér eru bráðabirgðalausnir ríkisstjórnarinnar ekki verri né vitlausari en bráðabirgðalausnir þær, sem stjórnarandstaðan og samtök launþega hafa sett fram sameiginlega. Hvort tveggja er kák og vitleysa, ef frá eru talin einstök atriði eins og afnám vörugjalds og samdráttur ríkisútgjalda.

Séu hlutlausir aðilar spurðir, hvað þeir mundu þá vilja láta gera, geta þeir aðeins bent á fyrri ráð sín, svo sem þau, er nefnd voru hér að framan. Í núverandi ástandi þarf djarfari lausnir en bókhaldstilfærslur.

Lánleysi ríkisstjórnarinnar byggist á sljóleika hennar og þingliðs hennar annars vegar og á vondri efnahagsráðgjöf sérfræðinga hennar hins vegar. Lánleysið er svo magnað, að leita verður með logandi ljósi að einhverju ekki alsvörtu. heldur gráu í gerðum hennar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið