Ekkert vex án jarðvegs

Greinar

Dagblaðið hefur nú í þremur leiðurum fjallað um ýmsar hliðar samskipta hinna ríku þjóða heimsins annars vegar og þriðja heimsins hins vegar.

Í einum leiðaranum voru leidd rök að því, að auður Vesturlanda væri ekki fenginn með arðráni, hvorki heima fyrir né gagnvart þriðja heiminum. Þessi auður er búinn til með síbyltingu í vísindum, tækni, skipulagi, stjórnun og sölu.

Í öðrum leiðaranum voru leidd rök að því, að ríku þjóðirnar hefðu ekki fé af þriðja heiminum í formi rangrar verðmyndunar, því að það væru einkum ríku þjóðirnar, sem framleiddu og seldu mat og hráefni. Einnig voru færð rök að því, að nýlendur hefðu yfirleitt verið móðurlöndunum fjötur um fót.

Í þriðja leiðaranum voru leidd rök að því, að iðnbyltingin, sem ríku þjóðirnar hafa flutt út til þriðja heimsins, sé fátækum almenningi þar til góðs. Sá almenningur átti sáralítinn þátt í hástéttarmenningu þeirri og hástéttarhefðum, sem iðnbyltingin er að brjóta niður.

Þessar kaldranalegu staðreyndir eru nauðsynlegur grundvöllur þess, að ríku þjóðirnar og þriðji heimurinn geti sameinazt í því átaki, sem dugi til að láta iðnbyltinguna takast í þriðja heiminum, svo að hungrað fólk megi verða að vel stæðri alþýðu.

Eftir síðari heimsstyrjöldina var Vestur-Evrópa í rústum. Bandaríkin hjálpuðu við að koma nýrri iðnbyltingu af stað í stríðshrjáðum löndum. Sáðkornið féll ekki í grýtta jörð. Evrópumenn kunnu til verka og urðu skjótt ríkir á nýjan leik.

Vandamálið í þriðja heiminum er, að þar kann fólk ekki til verka. Auðvitað tekur það þriðja heiminn langan tíma að læra að hagnýta sér vísindi, tækni, skipulag, stjórnun og sölu. Veitt aðstoð er því sáðkorn, sem fellur að meira eða minna leyti í grýtta jörð.

Ríku þjóðirnar geta hjálpað til með því að lækka tolla sína. Þær geta hjálpað til með því að leggja hluta af árlegri auðsöfnun sinni, t.d. 0,7% þjóðarframleiðslunnar, til efnahagslegrar aðstoðar við þriðja heiminn, svo sem Svíar eru nú farnir að gera. Þær geta eflt banka þá, sem fjármagna framkvæmdir í þriðja heiminum.

Svo verður að taka því, þótt þessi aðstoð fari að meira eða minna leyti í súginn. Margir leiðtogar þriðja heimsins sitja með hendur í skauti og kenna ríku þjóðunum um, hve seint miðar götuna fram eftir vegi. Þannig getur aðstoðin skaðað meira en gagnað.

Mestu máli skiptir að rækta smám saman skilning almennings og leiðtoga þriðja heimsins á eðli iðnbyltingar. Það gerist bezt með fræðslu, sem framkvæmd er með óbeinum hætti með samstarfi í vísindum, tækni, skipulagi, stjórnun og sölu.

Það er jarðvegur hugarfarsins, sem verður að rækta. Ef jarðvegurinn er góður, geta þjóðir orðið auðugar af eigin rammleik á skömmum tíma. Eins og Japanir geta þær um tíma notað lág laun sín til að komast inn á opna markaði Vesturlanda og náð síðan sömu lífskjörum og þjóðir Vesturlanda.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið