Konur á Íslandi mega vera hreyknar af framgöngu sinni á margnefndu kvennaári. Liðin er sú tíð, að kvennaárið sé fyrst og fremst ræðuglöðum karlmönnum tækifæri til að koma að hinu gernýtta og hvimleiða orðalagi: “Í tilefni kvennaárs…” Liðin er sú tíð, að kvennaárið sé fyrst og fremst skemmtikröftum tækifæri til gamanmála á árshátíðum.
Íslenzkar konur hafa ekki látið það á sig fá, að stallsystrum þeirra erlendis hefur að ýmsu leyti ekki gengið nógu vel að gera árið að raunverulegu kvennaári. Ráðstefnan mikla í Mexikó fór að verulegu leyti út um þúfur, enda réðu þar ferðinni pólitísk hrossakaup. Sem dæmi um ruglið þar má nefna gagnrýnina á zionismann, sem var höfð í hávegum, þótt Ísrael sé eitt mesta kvenfrelsisland heimsins.
Hér heima hefur barátta kvenna hins vegar gengið mun betur en á horfðist í upphafi og eftir Mexikóráðstefnuna. Innlenda kvennaráðstefnan í júní hefur sennilega ráðið úrslitum í þessari þróun, enda náðist þar víðtæk samstaða þvert á pólitískar línur og aðra flokkadrætti.
Ráðagerðirnar um allsherjarfrí kvenna hér á landi á morgun hafa uppskorið almennan skilning og samstöðu í þjóðfélaginu. Stéttasamtök og stjórnmálaflokkar hafa snúizt á sveif með konunum. Og allur þorri kvennanna sjálfra hyggst taka þátt í vinnustöðvuninni.
Upphaflega töluðu konur oft um verkfall hinn 24. október, en nú tala þær yfirleitt um frí. Þetta á sjálfsagt nokkurn þátt í hinni víðtæku samstöðu með konum og innan þjóðfélagsins í heild. Konur hafa orðið fúsari en ella til að taka sér þetta frí og þjóðfélagið hefur orðið fúsara en ella að viðurkenna það.
En óneitanlega verður broddurinn í aðgerðum kvenna nokkru minni fyrir bragðið. Fyrsti maí byrjaði þó sem harður baráttudagur verkamanna. En hinn fyrsti kvennadagur er þegar farinn að minna á almenna hátíðisdaga, svo sem frídag verzlunarmanna og fyrsta maí eins og hann er orðinn núna.
Samt er ljóst, að kvennadagurinn verður áhrifamikill. Hjól atvinnulífsins munu hægja á sér á morgun og jafnvel stöðvast alveg á sumum sviðum. Margvísleg þjónusta, sem menn hafa ekki hversdagslega í huga, leggst niður að meira eða minna leyti. Og karlmenn neyðast margir hverjir til að sinna heimilisstörfum og uppeldi í meira mæli en þeim þykir gott.
Á morgun mun þjóðfélagið reka sig á, að vinnuálag útivinnandi kvenna er mun meira en karla. Það mun reka sig á, að engar tekjur eru reiknaðar fyrir starf húsmæðra. Það mun reka sig á, að konur hafa í óþægilega mörgum tilvikum lægri laun en karlar fyrir sömu vinnu. Það mun reka sig á, að konum er haldið í miður launuðum störfum og að hinum svonefndu launaflokkum kvenna er haldið niðri.
Kvennafríið á Íslandi hefur vakið athygli víða um heim. Erlendar stallsystur íslenzku baráttukvennanna telja sig geta margt af þeim lært. Íslenzkar konur hafa tekið forustu í kvenfrelsismálum. Einn íslenzki dagur allsherjarfrís kvenna er hinn fyrsti slíkur, sem vitað er um í heiminum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið