Dagblaðið á eins árs afmæli í dag. Það er ekki hár aldur í samanburði við aðra fjölmiðla, sem sumir hverjir eru komnir á sjötugsaldur. En mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessu eina ári. Ævi Dagblaðsins á einu ári hefur á margan hátt verið sögulegri en áratugur í ævi annarra fjölmiðla.
Sífelldar hryðjur og sviptingar einkenndu fyrra hálfa árið, þegar líf blaðsinsi hékk hvað eftir annað á bláþræði. Þá lá við, að andstæðingum Dagblaðsins tækist að koma því á kné í tilraunum þeirra til að stöðva prentun þess. En einmitt á þessum erfiða tíma var vöxtur blaðsins einna örastur.
Síðara hálfa árið hefur verið mun friðsamlegra. Í stórum dráttum hefur samtryggingarkerfi stjórnmálaflokkanna gefizt upp á að reyna að koma Dagblaðinu fyrir kattarnef. Jafnframt hefur nýjabrumið minnkað og fjölgun lesenda orðið hægari en áður. Dagblaðið hefur unnið sér sess og eflist á hægan og öruggan hátt.
Enginn getur neitað því, að spor Dagblaðsins sjást í þjóðfélaginu nú þegar, þrátt fyrir aðeins eitt ár. Þjóðfélagið er heldur opnara en það var áður og almenningur hefur innsýn í vandamál, sem hann fékk ekkert að vita um áður.
Dagblaðið hefur megnað að rjúfa skarð í einokun stjórnmálaaflanna á fjölmiðlum hér á landi. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir þá sök, að hinir samtryggðu stjórnmálaflokkar eru of valdamiklir hér á landi.
Dagblaðið hefur að ýmsu leyti haft góð áhrif á þá fjölmiðla, sem fyrir voru í landinu. Samkeppninnar vegna hafa þeir neyðzt til að létta ofurlítið á flokksviðjunum og fara að skrifa um mál, sem almenningur þarf að vita um. Dagblaðið hefur orðið grundvöllur almennrar og óflokksbundinnar stjórnmálaumræðu. Í kjallaragreinum blaðsins hafa í heilt ár birzt skoðanir, sem spanna allt litróf íslenzkra stjórnmála.
Dagblaðið hefur rekið meiri rannsóknablaðamennsku en áður tíðkaðist hér á landi. Í anda Washington Post hefur blaðið reynt að grafa upp staðreyndir í stað þess að dylgja um hlutina eins og áður tíðkaðist í hinum pólitíska menúett, sem fjölmiðlarnir stigu.
Þessi spor Dagblaðsins í þjóðfélaginu hafa vitaskuld bakað blaðinu mikla reiði margra áhrifamanna og -afla í þjóðfélaginu. Sem betur fer minnka stöðugt möguleikar þessara afla á að leggja stein í götu blaðsins.
Á móti þessari reiði kemur svo hinn mikli stuðningur, sem Dagblaðið hefur notið hjá almenningi. Sá stuðningur kemur annars vegar í ljós af því, að blaðið treystir stöðugt stöðu sína sem næstmest lesna dagblað landsins. Hins vegar kemur hann í ljós af því, að blaðið er orðið næststærsti auglýsingamiðillinn og langstærsti smáauglýsingamiðillinn.
Dagblaðið mettar sig ekki úr ríkisjötunni, eins og hin blöðin gera, er taka sinn skerf af þeim 20 milljönum króna, sem á fjárlögum eru ætlaðar til styrktar pólitískri blaðaútgafu. Samt ber ekki á öðru en að Dagblaðið ætli að lífa góðu lífi á ókomnum árum, auðvitað á þeim stuðningi, sem er mikilvægastur allra, stuðningi lesenda.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið