Þegar vinstri flokkarnir ræddust við um myndun nýrrar vinstristjórnar, lá fyrir tillaga forsætisráðherra,ættuð frá Seðlabankanum, um 15% lækkun á gengi krónunnar. Um þessa lækkun var enginn ágreiningur í viðræðunum, sem fóru út um þúfur af öðrum ástæðum.
Gangur þessa gengislækkunarmáls lýsir afar nýstárlegum vinnubrögðum af hálfu Seðlabanka og ríkisstjórnar. Ekki hefur hingað til verið venja að flagga gengislækkunum fyrirfram. En í þetta sinn var það gert mjög rækilega.
Tillagan um 15% gengislækkun var nefnd í fjölmennum viðræðunefndum vinstri flokkanna og síðan í þingflokkum þeirra. Alkunnugt er, að þessar stofnanir hripleka fréttum til vina og kunningja, svo að hálf þjóðin vissi mjög fljótt um tillöguna.
Gjaldeyrisvarasjóðurinn var að tæmast vegna eyðslu- og óhófsstefnu ríkisstjórnarinnar. Nú hófst nýtt áhlaup á sjóðinn. Allir reyndu að verða sér úti um erlendan gjaldeyri áður en hækkunin kæmi til framkvæmda. Staða sjóðsins stefndi óðfluga að gjaldþroti, þótt allar yfirdráttarheimildir hans erlendis væru notaðar til fulls.
Þannig lék allt á reiðiskjálfi í gjaldeyrismálunum í tvær-þrjár vikur, unz skrúfað var fyrir gjaldeyrissölu á föstudaginn var. Það var nauðsynleg neyðarráðstöfun, þegar allt var komið í óefni.
Ekki verður komizt hjá því að lýsa fullri ábyrgð á hendur Seðlabanka og ríkisstjórn fyrir meðferð þessa gengislækkunarmáls. Sú meðferð hefur kostað gífurlega mikla eyðslu á erlendum gjaldeyri. Og hún veldur jafnframt miklum óþægindum núna, því að ljóst er, að ekki verður opnað aftur fyrir gjaldeyri, fyrr en gengið hefur verið lækkað beint eða óbeint.
Svona löguð ævintýramennska bendir til þess, að viðkomandi stofnanir séu ekki hlutverkum sínum vaxnar. Þess hlýtur að verða krafizt af Seðlabanka og ríkisstjórn, að þessar stofnanir geri hreint fyrir sínum dyrum og skýri, hvers vegna gengislækkunartillaga, sem allir voru sammála um, var látin hanga í lausu lofti vikum saman, meðan spekúlantar gerðu áhlaup á gjaldeyrisvarasjóðinn, og hvers vegna hún er enn látin hanga í lausu lofti.
Annað ábyrgðarleysi
Önnur tegund ábyrgðarleysis hefur komið í ljós í gengislækkunarmálinu. Alþýðubandalagið hefur tekið upp þá stefnu að vera bæði með og móti gengislækkuninni, með henni í viðræðum um vinstristjórn, en á móti henni í tilvonandi stjórnarandstöðu.
Í vinstri viðræðunum gerði forsætisráðherra gengislækkunartillögu Seðlabankans að sinni. Enginn ágreiningur varð um 15% gengislækkun meðal þeirra fjögurra flokka, sem tóku þátt í þessum viðræðum.
Þegar vinstri viðræðurnar voru farnar út um þúfur af öðrum ástæðum og viðræður Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks voru hafnar, sagði Þjóðviljinn yfir þvera forsíðu: “Fólk óttast gengisfellingu íhaldsstjórnar”.
Alþýðubandalagið vill sem sagt ekkert kannast við aðgerð, sem það var áður búið að samþykkja. Ætli hið sama verði uppi, þegar farið verður að ræða um frystingu kaupgjaldsvísitölunnar?
.Jónas Kristjánsson
Vísir