Einum leik lengra

Greinar

Skáktafl samtaka verkafólks annars vegar og ríkisstjórnarinnar og samtaka atvinnurekenda hins vegar er í flóknasta lagi um þessar mundir. Enda virðast málsaðilar hafa takmarkaða yfirsýn, nema þá helzt ríkisstjórnin, sem aldrei þessu vant virðist hafa hugsað einum leik lengra en aðrir.

Fyrsta mikilvæga atriði skákarinnar er, að forustumenn samtaka verkafólks hafa rétt fyrir sér í efnisatriðum málsins. Ríkisstjórnin átti ekki að láta alþingi skera niður verðbætur launa. Það gerir málstað hennar verstan, að hún lét að þessu leyti ógilda samninga, sem hún hafði sjálf staðið að og undirritað skömmu áður.

Annað mikilvæga atriðið er, að samtök verkafólks munu efnislega fá kröfum sínum framgengt. Með því að hugsa einn leik fram í tímann er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu. Hér er ekki rúm fyrir öll rökin, sem að því hníga, en minnast má á hið helzta.

Virkir félagar í samtökum verkafólks eru í hjarta sér sannfærðir um, að mótherjinn hafi beitt svívirðilegum rangindum. Þeir munu fylkja sér fast um flestar þær aðgerðir, sem forustumönnum samtakanna getur dottið í hug að beita. Þeir eru komnir í baráttuskap.

Að vísu hefur hingað til ekki náðst full samstaða um aðgerðir. Útflutningsbannið var afleikur, af því að markmiðið fór fyrir ofan garð og neðan í hugum margra virkra félagsmanna. Þeim fannst það vera fremur skemmdarverk en verkfall.

Þótt forustumennirnir þykist borubrattir, hafa þeir þegar dregið nokkuð í land. Þeir munu halda áfram að draga í land eftir þörfum, því að þeir eru reynslunni ríkari. Og þeir hafa líka áttað sig á, að í aðgerðum næstu vikna og mánaða verða þeir fyrirfram að vera búnir að móta sterkari samstöðu.

Við slíkar aðstæður er nánast útilokað fyrir stjórnvöld og atvinnurekendur að verjast réttlátri reiði verkafólks. Vörnin mun hrynja í síðasta lagi í haust og verkafólk mun vinna svonefndan faglegan sigur, þrátt fyrir lélega taflmennsku í upphafi.

Þriðja mikilvæga atriðið er svo, að ríkisstjórnin hefur í rauninni ekki ýkja mikinn áhuga á þessum þætti skákarinnar. Það er ekki vegna heilags stríðs við verðbólguna sem hún verst, þótt hún segi það. Hún veit eins og aðrir, að verðbólgan stafar ekki af verkafólki, sem hefur hálf laun hliðstæðra Norðmanna og Dana.

Ríkisstjórnin hyggst aftur á móti hagnýta sér í alþingiskosningunum aðgerðir samtaka verkafólks. Hún hyggst beita hinu gamalkunna lögmáli, að upplausn og órói feykja óákveðnum kjósendum, einkum millistéttafólki, í faðm stjórnvalda.

Hún ætlar að gera hneykslun þessara kjósenda á útflutningsbanni, olíubanni og öðru slíku yfirsterkari hneykslun þeirra á afleitum fjögurra ára ferli ríkisstjórnarinnar. Þannig ætlar hún að smala heim verulegum hluta af fylginu, sem hana hefur flúið á kjörtímabilinu.

Ef henni tekst með þessu að takmarka tapið í kosningunum við 2-4% af heildaratkvæðafjölda, mun hún með rétti líta á það sem pólitískan sigur í endatafli kjörtímabilsins. Þetta virðist henni ætla að takast. Sá pólitíski sigur verður henni sætari en hinn faglegi sigur verður samtökum verkafólks.

Þannig sér ríkisstjórnin einum leik lengra en aðrir í skákinni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið