Flokkseigandafélag Sjálfstæðisflokksins er enn að reyna að búa til samnigaandrúmsloft í þorskastríðinu, gegn vilja meirihluta stuðningsmanna flokksins og annarra landsmanna. Morgunblaðið og Vísir áminna þjóðina reglubundup um að forðast alla ævintýramennsku og halla sér heldur að raunsæi og samningum.
Þetta endurspeglar viðhorfin, sem komu fram í Canossaför Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra til Bretlands. Úr þeirri för kom hann með 85.000 tonna tilboð Wilsons. Tilboð þetta var augljóslega enginn grundvöllur samninga, enda fól það ekki í sér neina breytingu á viðhorfum Breta til aflamagns.
Geir lét sig samt hafa það að bera þetta tilboð undir félaga sína í ríkisstjórninni. Það átti hann ekki að gera. Hann átti að neita öllum tilgangslausum sendiferðum og erindrekstri fyrir Wilson forsætisráðherra. En hann skildi ekki nógu vel takmörk þess, sem unnt var að bjóða þjóðinni.
Enginn vildi ræða í alvöru tilboðið, sem var í farangri Geirs. Mat almennings og flestra annarra stjórnmálamanna var og er enn, að sterkara sé að halda þráteflinu á miðunum og láta tímann vinna með okkur, heldur en að semja um það aflamagn, sem Bretar geta sætt sig við.
Skýringin á þessum sambandsskorti forsætisráðherra og þjóðar er aðallega sú, að hann tekur aðeins mark á fámennum hópi ráðamanna flokkseigendafélagsins, sem eru í engu meira sambandi við fólkið í landinu. Þessi einangraði hópur hefur ekkert lært af þróun landhelgisdeilunnar á síðasta hálfa árinu.
Vegna þessa tala Morgunblaðið Og Vísir eins og Bretar séu meðal helztu vina okkar og félaga og eins og þorskastríðið stafi aðallega af eins konar misskilningi. Vegna þessa áminna blöðin þjóðina roglubundið um að forðast alla ævintýramennsku og halla sér heldur að raunsæi og samningum.
Guðlaugur Gíslason, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, setti nýlega rækilega ofan í við undantsláttarmenn í grein, sem Morgunblaðið neyddist til að birta. Sjónarmið Guðlaugs eru hin sömu og alls þurra þjóðarinnar. Hann lauk grein sinni með þessum orðum:
“Allt of áberandi undanlátssemi í íslenzkum fjölmiðlum og vanmat á aðstöðu og getu Landhelgisgæzlunnar veikir aðeins málstað Íslendinga og er ekki í neinu samræmi við stefnu stjórnvalda og Alþingis né vilja meginþorra íslenzku þjóðarinnar.”
Staðreyndin er sú, að flokkseigendafélagið og málgögn þess eru óafvitandi að verða eins konar fimmta herdeild í herbúðum Íslendinga í landhelgisdeilunni. Bretum er vel kunnugt um linkind forsætisráðherra og málgagnanna tveggja og haga sér í samræmi við það.
Þessi linkind er því stærsti þröskuldurinn í vegi réttlátrar lausnar landhelgisdeilunnar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið