Ríkisstjórnin telur sig hafa unnið þarft verk, er hún hækkaði skatta þeirra, sem báru hæsta skatta fyrir. Enda er trúlegt, að greiðendur hárra skatta séu fjölmennir í hópi þeirra, sem breiðust hafa bökin.
Hinu má ekki heldur gleyma, að greiðendur lágra og engra skatta eru fjölmennir í þessum hópi. Hinar nýju skattabreytingar koma ekki lögum yfir skattsvikara. Til dæmis er engin tilraun gerð til að ná skatti af rekstri heimila á kostnað fyrirtækja né af óframtöldum tekjum, sem eru afar miklar hér á landi.
Ríkisstjórnin hefði unnið mun þarfara verk, ef hún hefði reynt að koma lögum yfir hin breiðu bök, sem tekst að koma tekjum sínum framhjá skatti. Þar eru gífurlegir möguleikar á auknum skatttekjum ríkisins, sanngjarnari en auknar álögur á þá, sem gefa nauðugir eða viljugir upp allar sínar tekjur.
Nú er auðvitað ekki sanngjarnt að gera ótakmarkaðar kröfur um kerfisendurbætur á fyrstu vikum óreyndrar ríkisstjórnar. Kannski ættu Dagblaðið og aðrir gagnrýnendur að gefa ríkisstjórninni betri frið fram á öndverðan vetur til að sjá, hvort ekki fari að kræla á raunverulegum umbótum.
Ekki verður samt framhjá því gengið, að þeir, sem ekki stela undan skatti, mundu bera hinar auknu byrðar með meira jafnaðargeði, ef þeir treystu því, að ríkisstjórnin mundi koma skattalögum yfir þá, sem lifa í vellystingum praktuglega án þess að taka þátt í að halda uppi ríkisbákninu.
Enn alvarlegra mál er hin grófa afturvirkni nýju skattabreytinganna löngu eftir álagningu. Þar með hefur ríkisstjórnin rambað háskalegar en fyrri ríkisstjórnir út á yztu nöf laga og réttar. Siðferði af því tagi er illur fyrirboði.
Lögfróðir menn deila um lögmæti hinnar grófu afturvirkni. Vel getur verið, að Ólafur Jóhannesson hafi rétt fyrir sér, er hann segir afturvirknina ekki beinlínis bannaða með lögum hér á landi.
Hins vegar er afturvirknin óumdeilanlega siðlaus, enda bönnuð með lögum í siðuðum nágrannalöndum okkar. Það er hörmulegt að sjá forsætisráðherra og fyrrverandi dómsmálaráðherra allt að því hælast um siðferðisgat í landslögum. Viðhorfin, sem hann endurspeglar, valda mestu hugarangri í þessu máli.
Ætla mætti, að nýir ráðherrar mundu hugsa sitt ráð vel, áður en þeir ljá máls á grófri afturvirkni skattalaga. Þeim á að vera vel kunnugt um lög og venjur siðaðra þjóða og eiga ekki að hefja feril sinn á siðleysi, sem á sér einstaklega veika lagastoð.
Ríkisstjórn, sem ætti að taka forustu í bráðnauðsynlegri siðvæðingu þjóðfélagsins, hefur gerzt lærimeistari í ferðalögum á breiða veginum. Það er einkar athyglisvert, að ríkisstjórnin notfærir sér gat í landslögum með sama hætti og skattsvikarar notfæra sér göt í skattalögum. Hugarfarið er eitt og hið sama.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skattamálum eru sumpart þolanlegar, sumpart ófullnægjandi og sumpart svo siðlausar, að valda hlýtur verulegum áhyggjum. Þær gefa ekki hið minnsta tilefni til að óska ríkisstjórninni langra lífdaga.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið