Einföldun og samræming

Greinar

Árum saman hefur verið talað um, að nauðsynlegt sé að endurbæta skattakerfið. Ítarlegar athuganir hafa verið gerðar á ýmsum sviðum þess, en minna hefur orðið úr framkvæmdum, enda er viðfangsefnið eitt af flóknustu þáttum þjóðmálanna.

Hingað til hefur mest verið rætt um staðgreiðslu skatta og virðisaukaskatt, en hvorugt náð enn fram að ganga. Jafnframt er ljóst, að endurskoða þarf mun fleiri atriði en þessi tvö, því að skattakerfið í heild er úrelt og ósamræmt.

Matthías Á. Mathiesen fjármálaráðherra vék að þessum málum fyrir skömmu. Boðaði hann, að nú yrði unnið sleitulaust að þeim, bæði af hálfu embættismanna og þingmanna. Væri stefnt að því að ljúka þessum athugunum fyrir næsta haust, svo að Alþingi gæti tekið breytingartillögur til meðferðar á næsta þingi.

Matthías vék að fjölmörgum þáttum þessarar endurskoðunar. Í fyrsta lagi þarf að athuga, hvort ekki sé unnt að steypa öllum skattalögum ríkisins í einn lagabálk til að tryggja.yfirsýn, samræmi og gott skipulag. Slík samræming er raunar ætíð nauðsynleg með vissu millibili.

Í öðru lagi þarf að athuga tengsli tekjuöflunar ríkis og sveitarfélaga. Menn hafa fundið fyrir því á síðustu árum, að hlutfallið milli tekjuöflunar þessara aðila hefur raskazt verulega, sveitarfélögunum í óhag. Við svo búið má ekki lengur standa.

Ennfremur þarf að kanna, hvort og í hvaða mæli sé æskilegt að afnema mörkun tekjustofna til sérstakra þarfa. Greinilega kom fram af störfum Alþingis síðustu vikurnar fyrir jól, að hinir mörkuðu tekjustofnar binda mjög hendur þeirra, sem fjalla um fjárlögin, og spilla fyrir aðhaldi í útgjöldum ríkisins.

Einnig þarf að athuga, hvort ekki megi með lagabreytingum gera skattakerfið að virkara hagstjórnartæki á þann hátt, að ríkisstjórn og Alþingi fái ákveðnar heimildir eða svigrúm til breytinga á sköttum í hagstjórnarskyni frá ári til árs.

Þá þarf að gera þær breytingar á sköttum fyrirtækja, að gott samræmi sé milli skattbyrðar íslenzkra fyrirtækja og erlendra samkeppnisfyrirtækja. Hingað til hefur óhófleg skattbyrði spillt fyrir útflutningi íslenzkrar framleiðslu.

Eitt stefnuskrármála ríkisstjórnarinnar er að sameina tekjuskatt og helztu tryggingabætur í einu tekjujöfnunarkerfi, sem stundum hefur verið nefnt “neikvæður tekjuskattur”. Flestum, sem þessi mál hafa skoðað, er ljóst, að tímabært er að láta nýtt og einfalt kerfi leysa af hólmi hið flókna kerfi, sem við búum enn við og felst aðallega í því, að menn færa fjárupphæðir milli vasa sinna.

Ennfremur þarf áfram að vinna að breytingu tolla yfir í aðra skatta til samræmis við þróunina í helztu viðskiptalöndum okkar og í tollabandalögum, sem við höfum mikil samskipti við.

Loks vék fjármálaráðherra að þeim atriðum, sem oftast hafa verið nefnd, virðisaukaskattinum og staðgreiðslu skatta, er enn hafa ekki fengið fulla skoðun hjá stjórnvöldum. Með víðtækri endurskoðun á þessum mörgu sviðum skattakerfisins á að vera unnt að einfalda skattana og samræma þá.

Jónas Kristjánsson

Vísir