Svefnþungi stjórnarskrárnefndar og landsfræg leti formanns hennar valda því, að þjóðin fær ekki tækifæri til að tjá sig um stjórnarskrárbreytingar í næstu alþingiskosningum. Mega landsmenn teljast sælir, ef tillögur nefndarinnar líta dagsins ljós í tæka tíð fyrir alþingiskosningar árið 1982.
Þessi stöðnun veldur því, að ýmsir hafa lagt til, að nokkur brýnustu atriðin fái sérstaka meðferð á undan hinum. Ber þar hæst óánægjuna með hinn rýra atkvæðisrétt kjósenda í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Misræmið í atkvæðisrétti er orðið grófara en svo, að nokkur treysti sér til að verja það.
Í sameiginlegum tillögum ungliðasamtaka Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er lagt til, að hæfilegt misræmi milli Reykjavíkursvæðisins og mestu strjálbýliskjördæmanna sé 1 á móti 1,3. Telja tillögumenn, að með slíku hlutfalli sé vegið upp á móti aðstöðumun dreifbýlis og þéttbýlis.
Í síðustu alþingiskosningum var hins vegar svo komið, að reykvískir kjósendur höfðu eftir úthlutun uppbótarsæta aðeins fjórðung úr atkvæðisrétti á við Vestfirðinga. Í kosningunum sem fram munu fara á þessu ári, verða Reyknesingar nálægt því komnir niður í einn fimmta hluta af atkvæðisrétti Vestfirðinga.
Í nýútkominni bók um endurskoðun stjórnarskrárinnar bendir Gunnar G. Schram prófessor á leið til að lina þetta misrétti til bráðabirgða án þess að breyta þurfi stjórnarskránni. Hugmynd Gunnars má framkvæma með breytingu á kosningalögunum einum saman. Hún gæti því komizt til framkvæmda í alþingiskosningum á þessu ári, ef þingmenn kæmu sér saman um slíkt.
Tillagan felst í, að breytt verði ákvæðum um úthlutun hinna ellefu uppbótarþingsæta. Nú er annar hver uppbótarmaður valinn eftir hlutfallsreglu. Með því að afnema þessa hlutfallsreglu og heimila fleiri en einn uppbótarmann í hverju kjördæmi yrðu allir uppbótarmenn kjörnir í samræmi við atkvæðafjölda.
Þetta mundi ekki breyta þingmannatölu flokkanna, en mundi fjölga þingmönnum Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis á kostnað þeirra kjördæma, þar sem atkvæðisréttur er nú fjórfaldur og fimmfaldur. Mætti búast við, að misréttið minnkaði niður í hálfan þriðja kosningarétt.
Auðvitað nægir slík breyting ekki. En hún gæti vel dugað til bráðabirgða í eitt kjörtímabil, svo að bullsjóðandi óánægja Reykvíkinga og Reyknesinga sprengi ekki ketilinn. Hví skyldu þeir líka sætta sig lengur við núverandi ástand fremur en svertingjar í Rhodesíu sætta sig við svipaðan kosningarétt?
Ef stjórnmálaflokkarnir kærðu sig um, mætti framkvæma þessa breytingu í vetur og haga alþingiskosningum ársins í samræmi við hana. Hitt er svo öllu trúlegra, að ábyrgðarþrungið hjal þingmanna um misrétti á þessu sviði sé marklaust fleipur, eins og margt annað, sem þeir segja til að hafa kjósendur góða á kosningaári.
Það verður fróðlegt fyrir kjósendur að fylgjast með, hvernig landsfeður hyggjast smeygja sér fram hjá þessu réttlætismáli.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið