Eina leiðin

Greinar

Ríkisstjórnin hefur sem betur fer valið leið gengislækkunar úr ógöngum efnahagslífsins og hafnað uppbótaleiðinni, sem margir mæltu með að órannsökuðu máli. Útreikningar sérfræðinga hafa sýnt, að uppbótaleiðin hefði kostað þjóðina gífurlegar skattaálögur og tillitslausan niðurskurð ríkisútgjalda.

Einnig kom í ljós, að þessar álögur og niðurskurður hefðu ekki nægt, heldur aðeins veitt stundargrið. Enda er það gömul saga, að uppbótakerfi er aðeins áningarstaður á leið til gengislækkunar. Uppbótakerfi veitir mönnum aðeins um takmarkaðan tíma tækifæri til að neita að viðurkenna staðreyndir.

Þar við bætist, að uppbótakerfið átti aðeins að lina þjáningar útgerðar og fiskvinnslu, en hefði ekki haft veruleg áhrif á gjaldeyrisstöðuna. Gengislækkunin gerir hins vegar hvort tveggja í senn, kemur sjávarútveginum á heilbrigðan grundvöll og bætir gjaldeyrisstöðuna, svo að þjóðin getur áfram stundað eðlileg viðskipti við umheiminn og þarf ekki að sæta vöruskorti.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið 20% gengislækkun, sem jafngildir 25% hækkun á verði erlends gjaldeyris. Þessi lækkun er af sérfræðingum talin nægileg til að leysa efnahagskreppuna, ef unnt verður að hindra, að ófriður í atvinnulífinu dragi úr áhrifum hennar.

Þjóðin getur verið vongóð um, að ekki verði grafið undan lækningaráhrifum gengislækkunarinnar. Forustumönnum launþegasamtakanna er ljóst, að uppbótaleiðin hefði leitt til samdráttar og atvinnuleysis, en gengislækkunin tryggir hins vegar framhald fullrar atvinnu.

Ríkisstjórnin stefnir að ýmsum hliðarráðstöfunum, samhliða gengislækkuninni. Nauðsynlegt er að breyta fiskverðskerfinu á þann hátt, að millifærslur fram og til baka milli útgerðar og fiskvinnslu leggist niður og stefnt að því, að útgerðarmenn og sjómenn greiði sjálfir olíu, tryggingar, vexti og afborganir vegna rekstrar bátanna.

Ennfremur er nauðsynlegt, að ríkið skeri niður útgjöld sín til að geta staðið við skuldbindingar sínar vegna náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum og Neskaupstað.

Loks hyggst ríkisstjórnin gera ráðstafanir til þess að vernda hina verst settu í þjóðfélaginu gegn áhrifum gengislækkunarinnar. Það þýðir, að láglaunabætur, elli-og örorkulífeyrisgreiðslur verða hækkaðar. Þeir, sem betur eru settir, verða hins vegar að bera byrðar gengislækkunarinnar bótalaust.

Ríkisstjórnin hefur kynnt stjórnarandstöðunni og aðilum vinnumarkaðarins ástandið í efnahagsmálunum og væntanleg áhrif gengislækkunarinnar. Hún hefur lýst því yfir, að hún muni hafa samráð við þessa aðila um einstakar aðgerðir. Stjórnarandstaðan hafði áður lýst sig fúsa til samráða um björgunaraðgerðir, svo að þjóðinni er óhætt að vona, að samstaða náist á breiðum grundvelli um réttláta skiptingu byrðanna, sem versnandi viðskiptakjör og sölutregða íslenzkra afurða hafa í för með sér.

Með ákvörðuninni um gengislækkun hefur ríkisstjórnin valið einu leiðina, sem kom til greina.

Jónas Kristjánsson

Vísir