Beinir styrkir til landbúnaðar eiga á næsta ári að nema svipaðri upphæð og allur tekjuskattur einstaklinga. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þar er gert ráð fyrir 11600 milljón króna styrkjum til landbúnaðar og 11650 milljón króna tekjuskatti einstaklinga.
Tveir stærstu styrkjaliðirnir eru útflutningsuppbætur landbúnaðarafurða, sem nema 2963 milljónum í frumvarpinu, og niðurgreiðslur landbúnaðarafurða, sem nema 6531 milljón króna. Aðrir beinir styrkir nema samtals 2106 milljónum.
Síðasta talan skiptist þannig, að 873 milljónir fara í jarðræktarframlög, 491 milljón til Stofnlánadeildar landbúnaðarins, 200 milljónir til framræslu, 127 milljónir til búfjárræktar, 123 milljónir til lífeyrissjóðs bænda, 92 milljónir til fyrirhleðsla, landþurrkunar o. fl., 79 milljónir til Landnáms ríkisins, 12 milljónir til Jarðasjóðs og 111 milljónir í framlög af ýmsu tagi.
Lífeyrissjóður bænda er þyngri á fóðrunum en fram kemur hér að ofan. Í niðurgreiðsluliðnum eru faldar 345 milljónir, svo að heildarkostnaður ríkisins af sjóðnum verður 468 milljón krónur á næsta ári.
Samtenging niðurgreiðsla og lífeyrissjóðs bænda er staðfesting á, að niðurgreiðslurnar eru styrkur til bænda, þótt þær séu um leið styrkur til neytenda. Neytendur mætti styrkja með öðrum hætti, til dæmis með fjölskyldubótum eða með innflutningi ódýrra landbúnaðarafurða.
Landbúnaðarafurðir eru niðurgreiddar til að leyna því, hversu gífurlega dýrar þær eru í raun og veru; til að koma út vörum, sem annars væru illseljanlegar; og til að leyna hinni ofboðslegu offramleiðslu á þessum vörum. Þess vegna eru niðurgreiðslurnar fyrst og fremst styrkur til bænda, þótt þær gegni um leið ákveðnu hlutverki í sjónhverfingum stjórnvalda í verðlagsmálum.
Til viðbótar 11600 milljón króna styrkjunum til landbúnaðarins hyggst ríkið verja 1925 milljónum á næsta ári til ýmissar þjónustu á vegum landbúnaðarráðuneytisins. Af því fé renna 897 milljónir til landbúnaðar, 292 milljónir til bændaskóla og 736 milljónir til skógræktar og landgræðslu.
Ómældar eru svo þær þúsundir milljóna, sem árlega renna til þjónustu við strjálbýlið umfram þjónustu við kaupstaði og kauptún. Þar á meðal eru framlög til vegagerðar í sveitum, til rafvæðingar og til heimavistarskóla, svo að dæmi séu nefnd.
Landbúnaðurinn kostar því skattgreiðendur mun meira en þær 11600 milljónir, sem fara í beina styrki. Sú fyrirgreiðsla, sem hann nýtur utan beinna styrkja, er mun meiri en aðrir atvinnuvegir njóta.
Gagnrýnin á ríkjandi stefnu í landbúnaði hlýtur þó að beinast að verulegu leyti að beinu styrkjunum, sem eru 10% af fjárlögum ríkisins; sem nema rúmlega heilli Kröfluvirkjun á ári hverju, og sem nema öllum tekjuskatti einstaklinga á ári hverju.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið