Eigi skal semja.

Greinar

Íslendingar sem heild votta fjölskyldu Aldo Moro og ítölsku þjóðinni hina dýpstu samúð vegna morðsins á hinum fyrrverandi forsætisráðherra. Um leið vottum við okkur sjálfum og öðrum þjóðum Vesturlanda hina sömu samúð, því að missirinn er okkar allra.

Við nefnum Aldo Moro sérstaklega án þess að hafa gleymt fylgdarmönnum hans, sem drepnir voru, þegar honum var rænt. Við höfum ekki heldur gleymt öðrum Ítölum og Vesturlandabúum, sem borgarskæruliðar hafa svipt lífi.

Við nefnum Aldo Moro sérstaklega, af því að lífsstarf hans var fólgið í að sætta hin stríðandi öfl til hægri og vinstri á Ítalíu. Hann var sú táknmynd innanlandsfriðar,sem borgarskæruliðar vildu eyða.

Við nefnum Aldo Moro sérstaklega, af því að morð hans hlýtur að valda tímamótum í viðbrögðum Vesturlandabúa við illmennsku borgarskæruliða. Morð hans sýnir okkur öllum, að vettlingatökin.duga ekki lengur.

Um leið megum við ekki gleyma, að Vesturlönd byggja lýðræðisþjóðir, sem ekki geta svarað fúlmennum í sömu mynt. Lýðræðisþjóðir verða. að fylgja hefðum lýðræðis. Annars glata þær lýðræðinu og ganga fasismanum á hönd.

Sú er einmitt von borgaraskæruliða, að mögnun lögregluríkis og fækkun borgaralegra réttinda muni efla fylgi stjórnleysistefna og færa borgarskæruliðum tugþúsundir ungra liðsmanna.

Með þessu er ekki sagt, að rangt sé að herða viðurlög við morðum þeim, sem borgarskæruliðar fremja undir ódýru og fölsku flaggi hugsjóna og stórasannleiks. Viðurlögin ber að herða.

Sumir segja, að í vestrænum ríkjum, sem hafnað hafa dauðarefsingu, eigi að beita henni á ný í slíkum tilvikum. Annars muni fangelsin fyllast af illþýði og mannrán aukast í kjölfarið sem tilraun til að verzla með líf gíslanna fyrir frelsi illþýðisins.

Dauðarefsing hefði hins vegar annan vanda í för með sér. Borgarskæruliðar mundu þá fremur hefna sín með því að velja sér skotmörk í stað þess að taka gísla. Þannig gætu Vesturlandabúar staðið í verri vanda en áður.

Ýmislegt hafa menn lært af blóðbaði borgarskæruliða. Mikilvægust er reglan: Eigi skal semja. Lengi voru Ísraelsmenn hinir einu, sem beittu þessari reglu skilyrðislaust. Þeir náðu líka góðum árangri. Hinir, sem samið hafa, eru fórnardýr aukinna hryðjuverka.

Stjórn kristilegra og stjórnarandstaða kommúnista á Ítalíu gerðu rétt, þegar þau voru einhuga um að semja ekki um Aldo Moro við borgarskæruliða. Það var einmitt sú ákvörðun, sem markar tímamót í viðbrögðum Vesturlandabúa gagn borgarskæruliðum.

Oddvar Nordli, forsætisráðherra Norðmanna, sagði eftir morð Aldo Moro, að við glæpamenn ætti ekki að semja. Og London Times sagði: “Aðeins ríki, sem eru nógu öflug til að standast svona þrýsting, hafa minnstu möguleika á að sigra hryðjuverkamenn.”

Dagblaðið tekur undir þessi ummæli. Samúðarkveðjunum til Ítala fylgja því einnig heillaóskir vegna festu þeirra á erfiðum vordögum. Reglan er: Eigi skal semja.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið