Eftirsókn eftir vindi

Greinar

Stundum er spurt, af hverju okkur liggi svona mikið á. Af hverju við einblínum á hagvöxt og framleiðniaukningu. Af hverju við kvörtum vegna þrjátíu milljarða landbúnaðarstyrkja á ári. Af hverju við viljum nýjan iðnað, jafnvel erlenda stóriðju, sem getur haft ýmsan vanda í för með sér.

Hví ekki taka mark á Birtingi Voltaires, fara að rækta garðinn okkar? Hví ekki auka landbúnað og leyfa fleirum að komast í samband við náttúruna? Hví ekki stunda listrænar handiðnir án streitu fremur en nútíma streituiðnað? Hví ekki áreynslulausa nægjusemi í stað lífsgæðakapphlaups?

Við hagvaxtarsinnar getum svarað þessu með því að benda á, að á viku hverri eru um 40 flugferðir til útlanda. Þegar eru um 1000 manns á ári brottfluttir umfram aðflutta, sem notfæra sér þetta á þann hátt að kaupa farmiða aðra leiðina. Þetta er núverandi stig landflóttans.

Margir Íslendingar eru í nánu sambandi við vini og ættingja, sem búa erlendis, hafa heimsótt þá og þekkja lífskjör þeirra. Aðrir hafa stundað ferðir til sólarlanda og séð, hvernig lífskjör fátækra þjóða Miðjarðarhafsins hafa sífellt nálgazt okkar lífskjör, hvernig þau eru nú að síga fram úr.

Við komumst ekki hjá samanburðinum við útlönd. Við erum í svo nánum tengslum við umheiminn, að við vitum, að Ísland er eins og Bretland að dragast aftur úr. Þessi samanburður hefur þegar leitt til landflótta, sem nemur einum Hornafirði á ári. Senn getur það orðið einn Ísafjörður á ári, síðan einar Vestmannaeyjar.

Menn flytja af mörgum ástæðum, en fjórar eru einkar áberandi. Í fyrsta lagi er það fámennasti hópurinn, hinir óánægðu, sem alltaf eru árangurslaust að leita að einhverju betra en þeir búa við. Í öðru lagi eru það þeir, sem eiga í útlöndum vini eða ættingja, sem taka að sér að útvega vinnu, húsnæði og félagsskap.

Í þriðja lagi er það fólk með kunnáttu eða þekkingu, sem sótzt er eftir í mörgum löndum. Það eru iðnaðarmenn, tæknimenn og menntamenn, einkum í þenslugreinum. Íslendingar hafa og gott orð á sér fyrir vandvirkni og dugnað og eiga sums staðar auðveldara með að fá vinnu en jafnvel heimamenn.

Í fjórða lagi eru það athafnamennirnir, sem finnst of þröngt um sig heima fyrir og vilja freista gæfunnar úti í hinum stóra heimi. Og það er raunar athyglisvert, hve vel gengur erlendis mörgum, sem áður fóru flatt á athafnaþránni heima fyrir.

Í öllum hópunum sækjast menn eftir betri lífskjörum. Sumir vilja einbýlishús með sundlaug og heimilisbar, litasjónvarp með mörgum stöðvum, tvo bíla og tíð skemmtiferðalög. Sumir sækjast eftir öðru, en allt hið eftirsóknarverða á það sameiginlegt að kosta morð fjár, meiri og verðmætari peninga en menn geta aflað í láglaunalandi á borð við Ísland.

Íslenzka ríkið getur ekki skipað mönnum að sitja um kyrrt. Það getur ekki heldur sannfært þá um, að fátækt Ísland sé betra en auðug útlönd. Við sjáum þetta af landflóttanum og af hraðanum í aukningu hans. Og þar á ofan er þetta atgervisflótti vegna fjölda þekkingar- og kunnáttumanna annars vegar og athafnamanna hins vegar.

200.000 manna þjóðfélag hefur ekki efni á landflótta og sízt af öllu atgervisflótta. Byggðavandi Íslands er ekki í dreifbýli. heldur sjálf búsetan í þéttbýli, sem er komin í hættu. Þessi vandi veldur því, að við verðum að keppa við útlönd í hagvexti, samdrætti í landbúnaði, iðnþróun og jafnvel stóriðju, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið