Eftirmáli um ríkisstjórn.

Greinar

Eftir fremur dapurlegan feril síðustu vinstri stjórnar þóttust menn í upphafi geta gert hóflegar kröfur til núverandi rikisstjórnar um frammistöðu i góðu meðallagi. Menn bjuggust svo sem ekki við neinni kjarnorkustjórn, heldur varfærinni og tiltölulega giftudrjúgri miðlungsstjórn.

Þessar vonir hafa brugðizt. Núverandi ríkisstjórn skarar ekki fram úr vinstri stjórninni þrátt fyrir öruggan meirihluta á þingi. Ýmis dæmi um mistök stjórnarinnar hafa verið ýtarlega rakin hér í leiðurum Dagblaðsins á undanförnum vikum.

Sem dæmi um frammistöðuna í landhelgismálinu má nefna, að utanríkisráðherra var látinn standa eins og kjáni á ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins án greinargóðra upplýsinga um ásiglingarnar á Þór. Þótt þorskfiskar séu okkur mikilvægir, eru þeir ekki taldir spennandi í alþjóðastjórnmálum. Utanríkisráðherra gat gert drama úr málinu með því að rekja það í ræðu sinni og enda hana á yfirlýsingu um, að hann treysti sér ekki til að sitja á ráðherrafundi með brezkum ráðherrum. Síðan átti hann að ganga út og fara heim.

Þetta er dæmi um skort á hraða í hugsun. En i þessu máli er lika skortur á reisn. Gerður hefur verið fremur lélegur samningur við Vestur-Þjóðverja. Og þjóðin er dauðhrædd um, að stjórnin freistist til 60.000 tonna uppgjafar gagnvart Bretum, þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir.

Ljóst er orðið, að vandræðin í efnahagsmálum eru að meirihluta heimatilbúin. Ríkisstjórnin hefur valið sér lina og lélega ráðgjöf í efnahagsmálum, mjðg svipaða þeirri, sem vinstri stjórnin hafði. Ríkisstjórnin virðist ekkí hafa tekið efnahagsmálin nógu alvarlega.

Mesti bölvaldurinn í efnahagsmálunum er sjálf meðferð ríkisfjármálanna. Ríkisstjórnin hefur i tvígang magnað ríkisgeirann á kostnað lífskjara almennings og rekstrargrundvallar atvinnulífsins. Hún kann einfaldlega ekki með fé að fara.

Hér hefur verið stiklað á stóru, rétt til að leggja grundvöll að skýringu á frammistöðu ríkisstjórnarinnar. Hún hefur brugðizt í landhelgismálinu, efnahagsmálum og ríkisfjármálum. Hún hefur hugsað of hægt, látið sig skorta reisn og sýnt léttúð gagnvart þjóðarhag og ríkishag. Hún hefur umfram allt verið forustulítil, þótt einstakir ráðherrar hafi reynt að standa sig.

Spurningin er nú sú, hvernig ríkisstjórnin geti lagfært þetta án þess að segja af sér. Hún þarf betri skákmann stjórnmálanna i forustusess. Hún þarf meiri einlægni af hálfu ráðherra Framsóknarflokksins, og hún þarf nýjan ráðherra fjármála og efnahagsmála.

Forsætisráðherra og dómsmálaráðherra gætu reynt að skipta á sætum, um leið og Jónas Haralz bankastjóri yrði fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Þetta er tiltðlulega lítil breyting, sem gæti orðið árangursrík. Hins vegar verður ekki séð, að þjóðin eða stjórnarflokkarnir þoli óbreytt ástand til lengdar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið