Efnahagsrisi og lýðræðisdvergur

Greinar

Komið er í ljós, að Efnahagsbandalag Evrópu ætlar ekki að beita okkur efnahagslegum þvingunum til að hindra, að samningur okkar við Breta um veiðiheimildir í fiskveiðilögsögunni renni út án nokkurs framhalds 1. desember.

Þar með er ekki sagt, að bandalagið muni ekki beita slíkum þvingunum við síðara tækifæri, ef embættismenn þess telja slíkt henta. Ef til vill er bandalagið að venja okkur betur við tollfríðindin, sem við höfum notið þar síðan í sumar, og gera okkur háðari þeim, áður en til skarar verður látið skríða.

Efnahagsbandalagið er ákaflega einkennilegur ávöxtur voldugrar hugsjónar um sameinaða Evrópu. Að baki þess liggur hugmyndin um, að menn hætti smám saman að vera Bretar, Frakkar og Ítalir og verði Evrópumenn. Efnahagsbandalagið er öflugasta tilraunin til að búa smám saman til sambandsríki úr sundurleitum ríkjum Evrópu.

Hins vegar hefur bandalagið ekki náð að þroskast með lýðræðislegum hætti. Þing bandalagsins er ákaflega veikburða og áhrifalítið. Ekki verður heldur séð, að dómsmálakerfi þess hafi þróazt að neinu marki. Næstum öll völd í bandalaginu eru Í höndum embættismanna, sem sitja í stöðugum kappskákum við stjórnmálamenn einstakra ríkja.

Segja má, að Efnahagsbandalagið sé hið nýja Prússland Evrópu. Það býr við háþróað kerfi mjög færra embættismanna og tæknimanna, en hefur ekki hirt um að efla hina lýðræðislegu undirstöðu sína. Efnahagsbandalagið er köld og stálgrá stofnun, upplagður leikvöllur fyrir járnkanslara. Þetta skýrir hin mörgu dæmi um, hversu gjarnt bandalaginu er að neyta efnahagslegs aflsmunar, þegar hagsmunir þess eru í veði.

Þess vegna er líka vissara fyrir okkur að taka mark á Financial Times, þegar blaðið segir, að bandalagið muni beita okkur efnahagslegum þvingunum í vonlausri viðleitni þess við að ná nýjum undanþágusamningum um veiðar í landhelgi Íslands.

Þegar litið er til baka, er gott til þess að vita, að Ísland skuli aldrei hafa ánetjazt Efnahagsbandalagi Evrópu, þrátt fyrir marga kosti þess. Hin kalda rökhyggja járnkanslaranna hefði gert Ísland að útkjálkahéraði í bandalaginu.

Við getum rétt ímyndað okkur, hversu léttvægir fiskveiðihagsmunir íslenzka héraðsins væru innan slíkrar samsteypu. Evrópu munar ekki um, hvort hinir sönnu Evrópumenn eru 200.000 fleiri eða færri. En Íslendinga munar um að vera sín eigin þungamiðja, þótt það kosti ýmsar fórnir, sem fjölmennið þarf ekki að færa.

Við getum reynt og höfum reynt að njóta góðs af návistinni við hinn mikla efnahagsrisa, en við megum ekki hlaupa Í fang honum. Á þessu stigi skulum við gæta okkar mest á að hraða okkur ekki um of í þægindum nýfenginna gleðitíðinda af sjávarafurðum okkar. Þar kynni að leynast fiskur undir steini.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið