Jaiver Solana, utanríkisráðherra Evrópusambandsins, sagði í Washington á föstudaginn, að ekki sé hægt að fara í stríð við Saddam Hussein, nema skýrar sannanir komi í ljós um, að hann ráði yfir bönnuðum vopnum, og að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sé eini dómarinn um, hvort svo sé. Sama dag gaf Mohamed El Baradei, forstöðumaður kjarnorkustofnunar Sameinuðu þjóðanna, öryggisráðinu skýrslu um, að ósennilegt sé, að álrör, sem Írak reyndi að kaupa, hafi verið ætluð til smíði kjarnorkuvopna. Hans Blix, forstöðumaður leitarsveita stofnunarinnar í Írak, sagði fyrir helgina, að enn hefðu engin sönnunargögn um bönnuð vopn fundizt þar í landi. Undanfarna daga hafa kjallaragreinar bandarískra stórblaða lítið ksem ekkert fjallað um Írak, en þeim mun meira um hættuna af völdum Norður-Kóreu. Því er ekki lengur víst, að stríð við Írak sé óhjákvæmilegt á næstu vikum.