Eðlilegur aðdragandi

Greinar

Ekki tekur því að gera veður út af seinkun, sem orðin er og verður enn á, að efnahagsfrumvarp ríkisstjórnarinnar líti dagsins ljós á Alþingi. Komi frumvarpið fram í næstu viku, má líta svo á, að það hafi verið unnið með eðlilegum hraða.

A1þýðuflokkurinn hefur jafnan lagt þunga áherzlu á, að frumvarpið yrði tilbúið 1. febrúar. Samstarfsflokkarnir hafa tekið töluvert tillit til þeirrar kröfu. Aðstæður virðast hins vegar ætla að leiða til tveggja vikna seinkunar.

Allir stjórnarflokkarnir þrír lögðu tillögur sínar fyrir þriggja manna nefnd eins ráðherra úr hverjum stjórnarflokki. Ráðherranefndinni tókst að ná samkomulagi um meirihluta atriða fyrir 1. febrúar, en ekki öll.

Um sum atriðin hefur náðst samstaða ráðherra tveggja flokka af þremur. Einkum er það milli Steingríms Hermannssonar Og Kjartans Jóhannssonar. Alþýðubandalagsmaðurinn Ragnar Arnalds lenti í minnihluta í nefndinni í nokkrum mikilvægum atriðum.

Meöan nefndin vann verk sitt var Ólafur Jóhannesson sjálfur að semja efnahagsfrumvarp í einrúmi. Gera má ráð fyrir, að það hafi hann ekki gert af einræðishneigð einni saman, heldur hafi hann verið í nánu sambandi við sinn mann í ráðherranefndinni.

Ólafur hefur nú haft þessa fyrstu viku febrúarmánaðar til að bera saman skýrslu þremenninganna og sitt eigið frumvarp. Út af fyrir sig má telja þetta fulllangan umþóttunartíma. En ástæðan fyrir honum er sú, að Ólafur vill hafa flokk sinn að baki sér.

Ráðamenn Framsóknarflokksins hafa verið að skipta um efnahagsstefnu síðustu mánuði. Tillögur Framsóknarflokksins í janúar voru mjög ólíkar því, sem menn eru vanir að sjá úr þeirri átt. Margar voru þær einkar skynsamlegar.

StjÓrnmálaflokkur verður ekki leiddur inn í nútímann í einu vetfangi þótt nokkrir ráðamenn hans hafi gert það fyrir sitt leyti. Liðþjálfarnir úti um allt land verða að átta sig á breytingunni og gera hana að sinni.

Af þessari ástæðu hefur Framsóknarflokkurinn efnt til sérstaks miðstjórnarfundar um efnahagsfrumvarpið. Fundurinn hefst í dag og stendur fram á sunnudag. Á þessum fundi ætlar Ólafur Jóhannessson að treysta bakvarðasveitirnar.

Með einhuga flokk að baki nýjum tillögum getur Ólafur gengið harðar fram í ríkisstjórn til að ná samkomulagi um ýmis atriði, er skilja milli Alþýðuflokks Og Framsóknarflokks annars vegar og hins forneskjulega Alþýðubandalags hins vegar.

Þar verður vísitölumálið vafalaust þyngst i vöfum. Einnig má búast við, að takmörkun ríkisumsvifa verði Alþýðubandalaginu þungur biti í háls. Bandalagið er enn ekki orðið svo vestrænt, að það eigi auðvelt með að lúta meirihlutanum, þegar það lendir í minnihluta.

Samt halda ráðherrar því fram í viðtölum við Dagblaðið, að efnahagsfrumvarpið verði lagt fyrir Alþingi á mánudaginn. Það er töluverð bjartsýni þótt eitthvað kunni að hafa þokazt í ríkisstjórninni síðan ráðherranefndin skilaði af sér.

Sum ágreiningsatriði má sennilega leysa með bókunum ráðherra einstakra stjórnarflokka. Með slíkum hætti er hugsanlegt, að frumvarpið birtist á mánudaginn. Varlegra er þó að gera ráð fyrir, að það geti orðið síðar í vikunni.

Við því er ekkert að gera, þótt tímamótamál þurfi sinn aödraganda.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið