Verð á jörðum hefur löngum verið lágt hér á landi. Það hefur ekki fylgt verðbólgunni eins og verð annarra fasteigna. Bóndi, sem keypti jörð fyrir 20 eða 40 árum, fær nú minna verðmæti fyrir hana, þótt hann fái fleiri krónur en hann gaf fyrir á sínum tíma.
Þetta lága verð hefur vissulega auðveldað bændaefnum jarðakaup. En það hefur um leið rýrt eignir bænda, svo sem sárast kemur í ljós, þegar þeir hyggjast bregða búskap fyrir aldurs sakir eða af öðrum ástæðum. Að öllu samanlögðu hlýtur það að vera hagur bænda, að jarðir þeirra séu sem verðmætastar.
Nú eru töluverð umskipti að verða á þessu sviði, einkum í nágrenni kauptúna og kaupstaða, sem eru í örum vexti. Miklar umræður hafa orðið um nýjustu dæmin á þessu sviði, og hafa sumir hneykslazt ákaflega. Er þó verðið á því landi hlægilega lágt í samanburði við verð á landi í þéttbýli, því að dæmi eru um, að fermetrinn í einbýlishúsalóðum fari upp í 1000 krónur. Nokkrir tugir króna eru lítilfjörlegir í samanburði við það. .
Auk þess má telja mjög vafasamt, að verðhækkunin, sem orðið hefur á landi í nágrenni kauptúna og kaupstaða á t.d. tveimur áratugum, hafi í fullu tré við verðbólguna á sama tíma. Aðrir fasteigendur, svo sem þeir, er eiga sínar eigin íbúðir, hafa þó fengið bætta verðbólguna. Og það er eðlilegt, að landverð hækki eins og aðrar fasteignir í samræmi við verðbólguna.
Menn sjá ofsjónum yfir því, er jarðir seljast á milljónir og jafnvel tugmilljónir króna, það er að segja á verði eins eða fárra einbýlishúsa. Þessi andúð getur verið skiljanleg í þeim tilvikum, er verðhækkunin er langt umfram verðbólgu, en annars ekki.
Stungið hefur verið upp á fasteignasöluhagnaðarskatti að bandarískri fyrirmynd sem lausn á þessu vandamáli. Slíkur skattur yrði ákaflega vandmeðfarinn hér á landi vegna verðbólgunnar. Hann gæti auðveldlega hindrað fjölskyldur í að stækka við sig húsnæði með aukinni fjölskyldustærð, svo að dæmi sé nefnt.
Ef slíkum skatti væri komið upp hér, yrði hann að taka fullt tillit til verðbólgunnar frá kaupdegi fasteignar til söludags, því að á því bili fæst aðeins ímyndaður hagnaður. Og skatturinn ætti þá að renna til sveitarfélagsins á þeim forsendum, að það ætti hlutdeild í þeirri verðmætisaukningu lands, sem útþensla sveitarfélagsins hefur skapað
Hingað til hefur þetta ekki verið vandamál, því að landverð hefur verið lágt. Nú er hins vegar risinn töluverður æsingur út af fullkomlega löglegum og eðlilegum sölum. Þessu hafa fylgt árásir á landeigendur og lögfræðinga, sem hlut eiga að sölunum, svo og forsvarsmenn sveitarfélaga, sem hlut eiga að kaupunum.
Vonandi er þessi æsingur bóla, sem hjaðnar, svo að hægt sé að ræða í skynsemi um, hvernig beri að tryggja með lögum eðlilega meðferð þessara mála í náinni framtíð.
Jónas Kristjánsson
Vísir