Eðlileg þróunarsaga.

Greinar

Klofningur samtaka sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi í tvenn samtök var óhjákvæmilegur. Áhugamál Suðurnesjamanna og Innnesjamanna í samstarfi sveitarstjórna eru svo ólík, að þau verða bezt meðhöndluð sitt í hvoru lagi.

Á báðum stöðum hafa undanfarin ár verið starfræktar samstarfsnefndir sveitarfélaga. Skiptingin milli þeirra var sunnan Straums, það er að segja annars vegar í Suðurnes og hins vegar í Reykjavikursvæðið.

Reykjavík er aðili að samstarfsnefnd sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Að því leyti ná samstarfsnefndirnar tvær sameiginlega yfir stærra svæði en heildarsamtökunum í Reykjaneskjördæmi var ætlað að ná yfir.

Skýringin er sú, að Reykjavík er þungamiðjan í samstarfshugleiðingum á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavík er aðilinn, sem getur lagt fram kjarna í hitaveitu, vatnsveitu, rafveitu, brunavörnum, sorpeyðingu og ýmsu öðru, sem dæmin sýna.

Höfuðverkefni samstarfsnefndarinnar á höfuðborgarsvæðinu hafa verið á sviði skipulagsmála. Það er augljóst, að sveitarfélög, sem hafa runnið saman í eitt þéttbýli, verða að hafa samræmi í skipulagi byggðarinnar.

Þetta samstarf hefur gengið mjög vel, enda mótað af gagnkvæmri tillitssemi þátttakenda. Enn betur hefur suðurnesjamönnum gengið í sinni samstarfsnefnd, þar sem kraftaverk hafa verið unnin, þótt árangurinn sé ekki alltaf formlega tengdur nefndinni.

Sveitarfélögin á Suðurnesjum reka í sameiningu sjúkrahús og heilsugæzlustöð. Þau eiga fjölbrautaskóla og hitaveitu í sameiningu. Þau reka brunavarnir og sorpeyðingu saman.Þetta samstarf hefur mótazt á ótrúlega skömmum tíma.

Eftir allt, sem á undan er gengið, er það nánast formsatriði að breyta samstarfsnefnd Suðurnesjamanna í formlegt samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, svo sem nú hefur verið gert. Gera má þó ráð fyrir, að hér eftir aukist samstarfið hraðar en áður.

Þannig hefur samstarf Suðurnesjamanna annars vegar og Innnesjamanna hins vegar vaxið úr grasi á náttúrlegan hátt. Það hefur ekki gerzt með lagasetningu að ofan. Samstarfið fæddist og óx af þörfum heimamanna.

Staða hinna eldri samtaka sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi hefur orðið tæp við þessar breytingar. Þessi samtök, sem áður fyrr voru mjög virk, eru nú orðin næsta verkefnalítil. Fastir starfsmenn eru ekki lengur neinir.

Þessi samtök hafa enn það verkefni að kjósa fræðsluráð Reykjanesumdæmis á fjögurra ára fresti. Svo virðist sem Suðurnesjamenn hafi ekki áhuga á að slíta samstarfinu á þessu sviði, enda ríkir almenn ánægja með hina sameiginlegu fræðsluskrifstofu alls kjördæmisins.

Samtök sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi munu því ekki verða lögð niður að sinni, hvað sem síðar kann að verða. Það getur líka vel verið, að fyrr eða síðar komi í ljós einhver ný þörf á samstarfsvettvangi Suðurnesja- og Innnesjamanna.

Þróunin, sem hér hefur verið lýst, sýnir, að oft getur verið heppilegt að ofskipuleggja ekki fyrirfram, heldur leyfa atburðarásinni að mótast eftir náttúrlegum þörfum hverju sinni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið