Dýrlegur dalur

Greinar

Elliðaárdalurinn er ákjósanlegt útivistarsvæði fyrir Reykvíkinga og gegnir veigamiklu hlutverki í nýútkominni áætlun Birgis Ísleifs Gunnarssonar borgarstjóra um útivist og umhverfi í borginni.

Þetta útivistarsvæði nær neðan frá sjó í Elliðaárvogi og upp að Heiðmörk. Að svæðinu liggja fjölmennar byggðir, Árbær, Breiðholt, Fossvogur, Gerði, Vogar og Kleppsholt. Í áætluninni er gert ráð fyrir, að auðvelt verði að ganga úr þessum hverfum á útivistarsvæðið án þess að þurfa að stíga út á umferðargötu.,

Með aukinni ræktun og gróðursetningu verður Elliðaárdalurinn enn skemmtilegri vin í borgarlandinu en hann er núna. Að vísu er hann enn í útjaðri borgarinnar, en þess verður ekki langt að bíða, að þéttbýli Reykjavíkur færist langt austur fyrir dalinn. Við það eykst gildi hans sem útivistarsvæðis.

Við uppbyggingu svæðisins þarf auðvitað að gæta vel að því, að flóð í Elliðaánum spilli ekki gróðri og mannvirkjum. Slík flóð hafa leikið dalinn grátt til þessa og gert hann auðnarlegri en skilyrði veðurfars og landslags gefa kost á.

Í áætlun borgarstjóra er gert ráð fyrir, að skíðabrekkurnar í Ártúnsbrekkum verði auknar og endurbættar og að þar verði komið upp aðstöðu til hreinlætis og veitinga. Ennfremur er fyrirhugað að framleiða þar snjó, þegar á þarf að halda. Þar að auki er ráðgert að hreinsa grjót í Breiðholtshverfi og mynda þar skíðabrekkur.

Þar sem skautasvellið á Árbæjarlóni er ekki hættulaust, er gert ráð fyrir grunnri tjörn norðan lónsins, þar sem fólk geti skemmt sér á skautum af fullu öryggi. Einnig eru fyrirhuguð skautasvell á lygnum ofan við væntanlegar stíflur í Vesturál. Ekki má heldur gleyma Rauðavatni, þar sem bæta má verulega aðstöðuna til skautahlaups.

Í áætluninni er stefnt að því að vernda og auka laxveiðina í Austurál, en koma hins vegar upp silungsveiði í Vesturál með því að auka þar vatnsstrauminn og hagræða farveginum með stíflum. Slíkar aðgerðir gætu orðið yngstu kynslóðinni í borginni til gagns og gleði.

Árbæjarsafn heldur að sjálfsögðu áfram að vaxa. Hugsanlegt er, að þar verði komið upp starfsskóla fyrir unglinga og verði þar lögð áherzla á húsdýr, heyskap, garðrækt og silungsveiði. Einnig eru á lofti ráðagerðir um, að listiðn verði stunduð í húsum safnsins, einkum þjóðlegar greinar hennar eins og gull- og silfursmíði, söðlasmíði og vefnaður.

Ennfremur er fyrirhugað að reisa tiltölulega ódýra útisundlaug á Elliðaársvæðinu, koma upp leikvöllum, trimmbrautum, kappreiðabrautum fyrir hjólreiðamenn, varðeldaskálum og tjaldbúðastæðum. Loks er stefnt að því að hafa veitingasölu við helztu athafnasvæðin, til þess að fólk geti lengt útivistartíma sinn á svæðinu.

Þetta er auðvitað ekki hægt að gera allt í einu. Áætlunin gerir ráð fyrir tíu ára uppbyggingu og að fyrstu fjögur árin hafi svæðið frá Vesturlandsvegi að Árbæjarstíflu forgang. Á þessum fjórum árum á að verja 120 milljónum til þessa forgangssvæðis og 60 milljónum til göngu- og hjólreiðastíga um svæðið í heild. Þetta eru semsagt ekki draumórar, heldur framkvæmdaáætlun.

Jónas Kristjánsson

Vísir