Hliðarverkun á yfirtöku Glitnis er, að Ísland glataði trausti. Erlendis er talað um land hins bilaða seðlabankastjóra, hins ónýta fjármálaeftirlits, hinnar óheftu frjálshyggju í peningum. Krónan hrundi, þegar Glitnir var keyptur. Hvort sem brýn ástæða var til kaupanna eða ekki, þá kölluðu þau á eftirfylgni. Markvissar aðgerðir stjórnvalda til að friða útlendinga hefðu átt að koma í kjölfarið. Þær komu ekki og ekki heldur einni helgi síðar. Ég veit ekki, hvort Davíð og Geir eru í kolkrabbapoti. En ljóst er, að allt þeirra pat og pot í heila viku hefur verið dýrasta rugl Íslandssögunnar.