Tíu milljarðar króna eru mikið fé. Íslendingum þætti ekki amalegt, ef þeir sem þjóð hefðu á hverju ári heila tíu milljarða til umráða umfram það, sem þeir hafa nú.
Sumt af þessu fé mætti nota til að bæta afleita afkomu heimila og fyrirtækja. Og sumt mætti nota til að búa í haginn fyrir framtíðina með því að hraða orkuþróun landsins og uppbyggingu arðbærra atvinnuvega.
Menn kunna að telja tilgangslítið að ræða út í loftið um tíu milljarða króna. En þessi tala er þannig fundin, að hún er mismunurinn á nýtingu fjárfestingarpeninga okkar og ýmissa nágrannaþjóða okkar, sem kunna betur með fé að fara.
Við þurfum að leggja til hliðar 27% þjóðarteknanna eða 30 milljarða króna í fjárfestingu á ári hverju til að ná fram svipuðum hagvexti og Danir, sem nota í þessu skyni 19% þjóðarteknanna eða 20 milljarða á íslenzkan mælikvarða.
Mismunurinn á þessu nemur 10 milljörðum króna á ári á núverandi verðlagi. Þetta er hin árlega peningabrennsla okkar. Þessari upphæð sáum við árlega í grýtta jörð.
Þetta dapurlega ástand byggist á hinni víðtæku, áhrifamiklu og afdrifaríku þjóðnýtingu, sem felst í ríkisrekstri íslenzkra fjármála.
Ríkisvaldið skipuleggur forgangsröðun atvinnuveganna að handbæru fjármagni, lána-og vaxtakjörum og ríkisábyrgðum. Með ofsköttun þjóðarinnar, útgáfu ríkisskuldabréfa, Seðlabankafrystingu og kverkataki á fjármagnsinnflutningi nær ríkið undir sig verulegum hluta af því fjármagni, sem aflögu er til fjárfestingar hér á landi.
Ríkið skammtar þetta fé síðan í mismunandi réttháa stofnlánasjóði og byggðasjóði, sem atvinnuvegirnir lifa síðan á. Hluta fjárins skammtar ríkið í styrki, uppbætur og niðurgreiðslur til rétthæsta atvinnuvegarins.
Skipting þessa herfangs fer eftir pólitísku valdajafnvægi þrýstihópanna á hverjum tíma, en ekki eftir neinum efnahagslegum sjónarmiðum eða arðsemissjónarmiðum.
Þess vegna þykir það gott hér á landi, ef fjárfesting borgar sig til baka á tíu árum. Erlendis eru hins vegar mörg dæmi um, að fjárfesting sé þrjú til fimm ár að skila jafnvirði sínu til baka til nýrrar umferðar í uppbyggingu efnahagslífsins.
Við leyfum ekki fjármagni okkar að streyma til þeirra greina, sem skila mestum arði á stytztum tíma. Í þess stað förum við eftir pólitískri forgangsflokkun, sem bindur fjármagnsstraumana í fastar skorður ríkisrekstrarins.
Þessi ríkisrekstur fjármagnsins er ein helzta skýringin á eilífri fjárvöntun þjóðarinnar, sífelldri verðbólgu í landinu og réttlátri gremju almennings yfir lífskjörum sínum.
Broslegt er, þegar vinnuveitendur og launþegar berjast af hörku um, hve mikið eigi að borða af útsæðinu og hve miklu eigi að sá. Ríkið er nefnilega þegar búið að sá því í grýtta jörð. Á þessu sviði einu saman kostar stóri bróðir okkur tíu milljarða á ári hverju.
Jónas Kristjánsson
Vísir