Myndun nýrrar ríkisstjórnar er orðin fyllilega tímabær. Þjóðinni er dýr hver dagur, sem líður án þess, að byrjað sé af alvöru að glíma við aðkallandi vandamál í efnahags-og atvinnulífinu.
Stjórnarkreppan hefur staðið í sex vikur. Fyrst leið ein vika svo, að engum var falið að reyna stjórnarmyndun. Síðan fóru tvær vikur í nauð- synlega úttekt sérfræðinga á efnahagsástandinu. Hinar eiginlegu tilraunir til stjórnarmyndunar hafa svo staðið síðustu þrjár vikurnar.
Lengri stjórnarkreppur hafa vissulega verið algengar hér á landi. Þær eru einn af þeim göllum, sem fylgja margra flokka kerfi í meira mæli. en tveggja flokka kerfi. Nýjasta stjórnarkreppan minnir okkur enn á kosti tveggja flokka kerfis.
Dagblaðið Tíminn hefur tekið einmenningskjördæmi á dagskrá, en þau eru einmitt auðveldasta leiðin til að koma á kerfi tveggja flokka. Við slíkar kringumstæður neyðast smærri flokkar til að sameinast gegn stærri flokkum, en aðeins tveir flokkar eða kosningasamtök verða eftir. Þetta veitir meiri festu í stjórnmálunum og auðveldar því lausn vandamála á borð við þau, sem nú er við að etja.
Þótt einmenningskjördæmi séu æskileg, verða stjórnmálamenn að láta umræður um þau víkja fyrir lausn hinna aðkallandi vandamála. Það er mjög dapurlegt, ef ný stjórn dregst enn á langinn.
Atvinnuleysisvofan blasir við, ef atvinnulífið verður áfram látið ramba á barmi gjaldþrots. Í fiskveiðum og frystiiðnaði einum vantar 2.700 milljón krónur til að endar nái saman í rekstri eins árs. Þessi halli stafar af því, að þjóðin lifir um efni fram og það er staðreynd, sem mörgum reynist erfitt að horfast í augu við.
Ástandið er lítið betra hjá ríkinu, opinberum stofnunum og sjóðum. Þar vantar líklega 5.000 milljónir króna til þess að hið opinbera geti staðið við skuldbindingar sínar.
Verðbólgan sýður ákaft undir niðri, þótt hennar verði minna vart á yfirborðinu. Hinum sérstöku kosninganiðurgreiðslum verður að hætta um næstu mánaðamót, þegar bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar falla úr gildi. Þá mun kaupgreiðsluvísitalan hækka af þeim ástæðum og öðrum um 25-30%, ef ekki verður í reynd horfzt í augu við, að þjóðin lifir um efni fram.
Núverandi bráðabirgðastjórn getur ekki leyst þennan fjölþætta efnahagsvanda, því að eingöngu bráðabirgðaráðstafanir eru á hennar færi. Sem fyrst þarf því að taka við stjórn með öruggan þingmeirihluta. En því miður virðist svo sem myndun ríkisstjórnar verði ekki auðveld og að fleiri stjórnmálamenn verði kallaðir til að reyna.
Varnarmálin eru þessa dagana þrándur í götu myndunar endurholdgaðrar vinstristjórnar. En svo getur farið, að efnahagsmálin verði jafnmikill þröskuldur. Alþýðubandalagið kann að gefa eftir í varnarmálunum gegn afarkostum þeim í efnahagsmálum, sem settir voru fram í leiðara Þjóðviljans á fimmtudaginn. Þar var beðið um ríkisrekstur innflutningsverzlunar, banka og sparisjóða, tryggingafélaga og olíuverzlunar. Ef af slíku yrði,væri stigið varanlegt spor í átt til hagkerfis Austur-Evrópu. Er erfitt að hugsa sér, að framsóknarmenn og alþýðuflokksmenn sætti sig við slíkar aðfarir.
Ef ekki tekst að mynda vinstri stjórn um helgina, verða stjórnmálamennirnir að ganga með oddi og egg að leitun nýrra leiða.
Jónas Kristjánsson
Vísir