Dulbúið atvinnuleysi

Greinar

Nýlega gagnrýndi Davíð Scheving Thorsteinsson, formaður Félags íslenzkra iðnrekenda, ráðamenn þjóðarinnar harðlega fyrir að stæra sig af, að atvinnuleysi væri ekki hér á landi. Davíð sagði, að í rauninni væri mikið atvinnuleysi hér á landi, bara dulbúið. Hann nefndi nokkur dæmi:

“Veiðifloti okkar er of stór miðað við það magn af fiski, sem veiðist. Aðeins er deilt um, hversu mikið of stór flotinn er. Of stór floti þýðir dulbúið atvinnuleysi. Þeir, sem vinna á þeim skipum, sem eru fram yfir æskilega hámarksstærð flotans, veiða aðeins þann fisk, sem aðrir hefðu auðveldlega getað veitt.

Allir eru nú sammála um, að við höfum stundað rányrkju á miðunum undanfarin ár, en greinir aðeins á um, hversu mikla. Ástæður þess, að stjórnmálamennirnir hafa hvorki viljað hlíta ráðleggingum fiskifræðinga né útvegsmanna sjálfra, er að sjálfsögðu sú atvinnuskerðing, sem slíkar aðgerðir hefðu í för með sér, bæði hjá því fólki, sem starfar við fiskvinnslu í landi og hjá sjómönnum. Ofveiði er því ekkert annað endulbúíð atvinnuleysi.

Framleiðsla á gífurlega niðurgreiddum landbúnaðarafurðum til útflutnings er dulbúið atvinnuleysi og það að reyna að auka sölu á landbúnaðarafurðum innanlands með niðurgreiðslum er einnig dulbúið atvinnuleysi. Haldið er uppi háu atvinnustigi í landbúnaði með skattlagningu allra landsmanna.

Framleiðni í íslenzkum iðnaði er mun minni en í iðnaði samkeppnislandanna. Ef framleiðni í okkar iðnaði væri hin sama og hjá samkeppnisþjóðunum, þyrftum við mun færra fólk til að framleiða sama magn af vörum og við gerum nú. Lítil framleiðni íslenzks iðnaðar er því miður einnig dulbúið atvinnuleysi.

Við Íslendingar jukum erlendar skuldir okkar að meðaltali um tíu milljónir króna á hverri einustu klukkustund sólarhringsins allt síðastliðið ár, jafnt helgidaga sem aðra daga. … Stórum hluta þessa gífurlega fjármagns er varið til þess að halda uppi opinberri þjónustu og ýmiss konar gerviþörfum, sem við höfum ekki efni á. Slíkt háttalag er ekkert annað en dulbúið atvinnuleysi.”

Öll atriðin, sem Davíð nefndi, eru gamalkunnar staðreyndir, sem ekki verða vefengdar. Hann setur þær í nýtt ljós, sem hingað til hefur ekki vakið athygli manna. Kjarni málsins er nefnilega sá, að dulbúið atvinnuleysi hefur mjög svipuð áhrif og opið atvinnuleysi.

Í opnu atvinnuleysi fá menn atvinnuleysisstyrk, sem ekki er jafnhár venjulegum atvinnutekjum. En það fé er auðvitað tekið af tekjum hinna, sem atvinnu hafa. Í dulbúnu atvinnuleysi er hins vegar meira jafnvægi í lágum lífskjörum. Þess vegna taka sumir dulbúið atvinnuleysi fram yfir opið atvinnuleysi. En útkoman er svipuð: Landflótti vegna lélegra lífskjara. Sá flótti er raunar þegar hafinn.

Davíð benti á þá uggvænlegu staðreynd, að á næstu fimm árum mundu rúmlega 9.000 manns koma úr skólunum til starfa. “Ekki dugir að leysa vanda þess með því að benda á, að flogið sé 40 sinnum i viku frá Íslandi til útlanda”, sagði Davíð.

Auðvitað er “eina raunhæfa lausnin, að við snúum okkur loks að því að byggja upp heilbrigt atvinnulíf hér á landi”, svo enn séu notuð orð Davíðs. Við þurfum að byggja upp framleiðinn iðnað, bæði til að taka við hinu dulhúna atvinnuleySsi, sem þegar er til, og hinu nýja atvinnuleysi, sem mun fylgja komu unga fólksins úr skólunum.

Annars flýr fólk bara land.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið