Algengt tímakaup í fiskvinnu hér á landi er 293 krónur. Í Færeyjum er hlíðstætt kaup 503 íslenzkar krónur fyrir konur og 553 krónur fyrir karla. Þessi gífurlegi munur er einn af furðum efnahagslífsins, sem enginn sérfræðingur hefur enn getað útskýrt.
Guðmundur J. Guðmundsson, varaformaður Dagsbrúnar, gerði þessar tölur að umtalsefni í kjallaragrein í Dagblaðinu um daginn.Benti hann á, að Færeyingar selja mikinn hluta af sínum fiski á sömu mörkuðum og við og að hin íslenzka Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna annaðist fyrir þá sölu að verulegu leyti í Bandaríkjunum.
Guðmundur lagði til, að íslenzkir efnahagssérfræðingar færu til Færeyja til að kynna sér, af hverju sé unnt að borga þar fiskvinnslufólki og sjómönnum miklu meira kaup fyrir að veiða og vinna fisk, sem seldur er á svipuðu verði á sama markaði og hinn íslenzki.
Meðan sérfræðingarnir eru að hugleiða hin góðu ráð Guðmundar, er einkar forvitnilegt fyrir okkur, sem heima sitjum, að velta fyrir okkur ýmsum hugsanlegum skýringum á hinum dularfulla launamun.
Munurinn gæti hugsanlega verið fólginn í því, að fiskveiðar og fiskvinnsla í Færeyjum séu rekin mun betur en hér á landi. Efnahagssérfræðingar okkar ættu ekki að þurfa að vera lengi að finna rekstrarmismuninn, ef einhver er. Síðan gætu íslenzkir atvinnurekendur í fiskveiðum og fiskvinnslu farið á námskeið til Færeyja til að læra rekstur.
Munurinn færi líka hugsanlega verið fólginn í því, að fiskveiðar og fiskvinnsla á Íslandi skili einhverjum þeim hagnaði, sem ekki komi fram í dagsljósið, heldur sé falinn einhvers staðar. Hvorki þessi skýring né hin fyrri er sennileg, en í jafnalvarlegu máli og þessu er nauðsynlegt að leita af sér allan grun.
Ennfremur gæti munurinn hugsanlega verið fólginn í því, að Færeyingar vinni stuttan og afkastamikinn vinnudag, meðan Íslendingar hafi lent í þeim vítahring að byggja efnahagskerfi sitt á eftirvinnu og næturvinnu og tilheyrandi þreytu, sem gefur litil afköst á hverja vinnustund.
Loks gæti munurinn hugsanlega verið fólginn í því, að hið opinbera sé frekara til fjárins hér á landi en í Færeyjum. Þar gildir ekki neinn fínimannsleikur í opinberum rekstri. Við teljum okkur hins vegar hafa efni á alls kyns “samneyzlu” á borð við byggðastefnu, landbúnaðaruppihald og tiltölulega fullkomna félagslega samtryggingu.
Líklega er þetta síðasta sú skýring, sem nærtækust er. Í Færeyjum eru hinar arðbæru greinar, fiskveiðar og fiskvinnsla, tiltölulega fjölmennar og kvígildin í þjóðfélaginu tiltölulega fá. Hér eru arðbæru greinarnar tiltölulega fámennar en styrktu atvinnugreinarnar tiltölulega fjölmennar.
Alténd er nauðsynlegt að finna skýringarnar á kaupmismuninum í Færeyjum og á Íslandi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið