Drög að endurreisn

Greinar

Í langri grein Gunnars Tómassonar, hagfræðings Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, í síðasta tölublaði Eimreiðarinnar, er ítarleg lýsing á orsökum efnahagsvanda Íslendinga og athyglisverðar tillögur um efnahagslega endurreisn.

Lagt er til, að greiðslur úr og í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins fari eftir breytingu á aflamagni jafnt og útflutningsverði. Markmiðið er að takmarka árlegar rauntekjusveiflur í sjávarútvegi við 5-10% til þess að skera á einn helzta verðbólguhvatann.

Lagt er til, að það, sem Gunnar kallar “verðbólguskatt á sjávarútvegi”, verði lagt niður, sem þýðir væntanlega, að gengi krónunnar sé jafnan rétt skráð. Í staðinn greiði sjávarútvegurinn 25% auðlindaskatt fyrir afnot af auðlindum landgrunnsins.

Lagt er til, að gengið sé jafnan rétt skráð, svo að jafnvægi haldist milli verðlags og kostnaðar í íslenzku atvinnulífi annars vegar og í helztu viðskiptalöndum okkar hins vegar.

Lagt er til, að leyft verði að flytja inn landbúnaðarvörur og þær tollaðar til að vernda innlendan landbúnað. Jafnframt ráði samtök bænda sjálf verði afurða þeirra í samkeppni við innflutninginn. Dregið verði úr fjárfestingu í landbúnaði, þar sem fjárfesting t.d. í sjávarútvegi sé nærri helmingi arðbærari. Niðurgreiðslur séu hinar sömu á öllum tegundum landbúnaðarafurða.

Lagt er til, að verðlagsákvæði verði afnumin með öllu, þar sem þau hafi stórskaðað efnahagskerfi þjóðarinnar og stuðlað að óhagkvæmni í atvinnulífinu. Gunnar telur, að þetta mundi í fyrstu hækka verðlag en síðan leiða til aukins jafnvægis og aukinnar þjóðarframleiðslu.

Lagt er til, að vísitölubinding launa verði afnumin og kjarasamningum hagað eftir sænskri fyrirmynd. Heildarsamtökin geri rammasamninga til 2-3 ára, sem segi til um meðallaunahækkanir einstakra starfshópa.

Lögð verði aukin áherzla á starf sáttasemjara og kjaradóms. Launabreytingar opinberra starfsmanna fylgi nákvæmlega öðrum launabreytingum. Námstími iðnaðarmanna verði styttur og laun iðnnema hækkuð verulega til að auka framboð sérhæfðs vinnuafls og iðnaðarmanna.

Vextir verði nógu háir til þess, að sparifjáreigendur og lífeyrissjóðir fái fulla greiðslu frá lántakendum fyrir notkun fjármagns þeirra. Dregið verði úr mismunun í vaxtakjörum milli einstakra greina atvinnulífsins.

Linuð verði skattlagning atvinnulífsins, tollar og söluskattur lækkaður, aðstöðugjald afnumið og auðlindaskattur tekinn upp í staðinn.

Þeir, sem eru að koma þaki yfir höfuðið á sér, fái ríflega skattaívilnun í stað verðbólguhagnaðar.

Heildarstjórn fjármála verði endurbætt. Fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn skipti með sér ábyrgðinni og bankanum falin stjórn greiðslujafnaðar við útlönd, heildarframboðs fjármagns og hóflegra gengisbreytinga.

Ýmsar fleiri tillögur eru í Eimreiðargrein Gunnars Tómassonar. Flestar tillögur hans eru svipaðar hugmyndum, sem hagfræðingar hafa áður sett fram og þykja góðar og gildar í nágrannalöndum okkar, þar sem verðlag er stöðugra en hér. Ekki er því beinlínis um nýjungar að ræða í einstökum liðum, en heildarmynd þeirra er fersk og vænleg til endurreisnar efnahagslífsins.

Jónas Kristjánsson

Vísir