Dráttardýrin okkar

Greinar

Dráttardýr hvers þjóðflags eru mennirnir með snilligáfuna. Hugsanir þeirra lyfta umhverfi þeirra efnislega og andlega. Sumir eru í listum og bókmenntum. Aðrir gera lífsbaráttuna auðveldari hjá heilum þjóðum eða jafnvel mannkyninu öllu. Þeir finna nýja tækni, nýjar vinnuaðferðir.

Hér er ekki átt við vísindamenn holt og bolt. Flestir þeirra eru lítið annað en langskólagengnir skriffinnar, sem hafa tileinkað sér hefðbundnar vinnuaðferðir á flóknum sviðum. Hér er hins vegar átt við uppfinningamennina, sem hafna hefðbundnum hugsunarbætti og ryðjast inn á áður ókunn svið.

Allt mannkyn lifði enn í frumstæðri eymd, barnadauða og hungri, við þrotlaust strit og litlar ævilíkur, ef ekki hefðu allar aldir verið til menn með meiri eða minni snilligáfu. Öll efnahagsþróun hefur byggzt á snilligáfu uppfinningamanna í vísindum, tækni, samgöngum og viðskiptum.

Karl Marx var úti að aka, þegar hann sagði, að hendur almennings sköpuðu verðmætin. Upprunalega er það snilligáfan, sem skapar verðmætin. Stundum tekst uppfinningamönnunum að hafa hag af hugarleiftri sínu, unz einkaleyfi þeirra renna út og verða eign fjöldans. Á meðan eru þeir oft ranglega litnir illu auga og kallaðir arðræningjar.

Hvar stæðum við Íslendingar með hendur okkar, ef uppfinningamenn hefðu ekki fært okkur fisksjár og önnur háþróuð tæki, víxla og aðrar háþróaðar viðskiptaaðferðir, síma og aðrar háþróaðar samgönguleiðir? Auðvitað stæðum við með tvær hendur tómar, kannski atvinnulausar.

Þannig hvílir hvert þjóðfélag á herðum örfárra manna, sem hafa snilligáfu í meiri eða minni mæli. Þessir menn eru örugglega innan við 1% af mannfólkinu, en skipta þó meira máli en hin 99%.

Sem betur fer þurfum við Íslendingar ekki að vera sjálfum okkur nógir í snilligáfu, sem við kaupum í formi vöru og þjónustu. En sumpart verðum við líka að lifa á innlendri snilligáfu og hennar verður of lítið vart.

Þjóðfélagi Íslendinga er stjórnað af meðalmennum fyrir meðalmenn. Í skólum landsins er reynt að rækta skriffinna og sérfræðinga, er geti síðar orðið opinberir starfsmenn. Þar er áherzlan lögð á miðjuna, auk veikburða tilrauna til að lyfta þeim upp, sem miður mega sín. En ekkert er gert til að hlúa að fræjum snilligáfu.

Sum börn koma inn í skólakerfið með gífurlega eðlisgreind í vegarnesti. Þar eru þau til að byrja með látin sitja aðgerðarlaus í 3-4 ár, meðan hin læra að lesa, skrifa og reikna. Þau dofna, færast nær miðjunni og missa fræ snilligáfunnar. Þau falla inn í mót miðlungs Íslendingsins.

Samt þurfum við ekki fleiri miðlungsmenn,. heldur snillinga. Aðeins þeir réttlæta sjálfstæða tilvist Íslendinga sem þjóðar. Án þeirra er Ísland aðeins óarðbær útkjálki fólks, sem lifir á molum, er falla af nægtaborði umheimsins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið