Dólgasiðferði

Greinar

Alþjóða blaðasambandið hugðist í vor halda ársþing sitt í Lagos í Nígeríu. Á dagskránni áttu að vera umræður hvítra blaðamanna frá Suður.Afríku og svartra blaðamanna frá öðrum Afríkuríkjum um aðskilnaðarstefnu Suður-Afríkustjórnar.

Þegar leið að ársþinginu, kom í ljós, að Nígeríustjórn neitaði að hleypa hvítum blaðamönnum frá Suður-Afríku inn í landið. Eftir nokkurt þref ákvað stjórn Alþjóða blaðasambandsins að láta ekki kúga sig og flutti þingið í skyndingu til Zürich í Sviss.

Þetta kostaði mikið fé og töluvert af úrsögnum blaða þriðja heimsins úr sambandinu. En blöð á Vesturlöndum mátu þennan siðferðisstyrk stjórnar sambandsins svo mikils, að þau fjölmenntu til Zürich og gerðu ársþingið að því stærsta, sem haldið hefur verið.

Þetta er eitt nýjasta dæmið um, að Vesturlandamenn eru að vakna til vitundar um, að dólgasiðferði þriðja heimsins hefur gengið úr hófi fram í alþjóðlegu samstarfi og að tími er til kominn að spyrna við fótum.

Mest ber á siðleysi þróunarlandanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ofsóknir þeirra á hendur Ísrael og brottrekstur þess úr Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, eru eitt af mörgum slíkum dæmum. Kvennaráðstefnan í Mexíkó er nýjasta dæmið um slæm áhrif þriðja heimsins á alþjóðlegum vettvangi.

Vesturlönd hafa lítið aðhafzt til þessa. En teikn eru á lofti um, að þau fari senn að hætta að láta bjóða sér meira af þessu tagi. .Sleikjuskapur þeirra gagnvart þróunarlöndunum hefur minnkað og sömuleiðis áhugi þeirra á virkri þátttöku í samtökum, þar sem þriðji heimurinn ræður ríkjum.

Bandaríkjastjórn hefur tekið forustu í þessum efnum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og vonandi fylgja fleiri á eftir. Það hefur tekið aldir að byggja hinn vestræna heim frjálslyndis, frelsis og umburðarlyndis og ástæðulaust er að láta þróunarlöndin rífa niður á fáum árum þær siðvenjur í alþjóðlegum samskiptum.

Þriðji heimurinn hefur allt á hornum sér og kennir Vesturlöndum um eymd sína. Því er haldið fram, að hráefnaverði sé haldið niðri og iðnaðarvöru verði uppi til að græða á þróunarlöndunum. Hve fráleitt þetta er, má sjá af því, að Vesturlönd með Bandaríkin í fararbroddi eru mestu útflutningslönd landbúnaðarafurða í heiminum, á meðan mörg þróunarlönd verða að flytja inn matvæli.

Þriðji heimurinn samanstendur að mestu af ríkjum einræðis og harðstjórnar, þar sem spillingin er svo mikil að enginn hreyfir sig fyrir minna en 10%. Ríki þessi lifa á pólitískum hórdómi, enda studdu þau áður fyrr Bandaríkin, síðan Sovétríkin og nú síðast Arabaríkin, allt eftir því hver er hæstbjóðandi hverju sinni.

Stjórnarfarið í þessum ríkjum er svo ömurlegt, að eymd almennings fer víða vaxandi, þrátt fyrir mútuféð. Valdhafarnir hafa mestan áhuga á ríkisrekstri atvinnuveganna, af því að þeir hagnast sjálfir á honum, og gera þannig illt verra, því að framtak þjóðanna lamast.

Til að hylma yfir þetta er haldið uppi gífurlegum þjóðernisrembingi innanlands og utan og botnlausri kröfugerð á hendur Vesturlöndum.

Dæmið um Alþjóða blaðasambandið gefur vonir um, að Vesturlönd láti ekki kúga sig og láti ekki siðfræði þriðja heimsins breiðast út.

Jónas Kristjánsson

Vísir