Í auknum mæli er þrýst á Bandaríkjamenn að haga sér eins og annað fólk í umhverfismálum og taka þátt í átakinu, sem kennt er við Kyoto. Á ráðstefnu valdamanna í stjórnmálum og viðskiptum í Davos hafa ýmsir forstjórar hnattvæddra bandarískra risafyrirtækja lagzt á sveif með evrópskum sjónarmiðum um, að tími sé kominn til að taka til hendinni í umhverfismálum og hamla gegn útblæstri koltvísýrings. Þá hafa sum ríki í Bandaríkjunum farið evrópsku leiðina, þar á meðal Kalifornía. Það bætir líka stöðuna, að Tony Blair, forsætisráðherra Breta, leggur áherzlu á umhverfisumbætur.