Dagprísar á krónunni

Greinar

Flestir segjast vera andvígir verðbólgu, jafnvel þeir, sem hagnast á henni. Og varla er til sá stjórnmálamaður, sem ekki hefur afnám verðbólgunnar efst á loforðalista sínum. Þessi einkennisbólga Íslands skipar heiðursseti í stjórnmálaályktunum og málefnasamningum.

Samt gengur hvorki né rekur. Verðbólgan situr við sinn keip. Hún er að vísu misjafnlega mikil. Á viðreisnartímanum var hún að meðaltali um10% á ári. Núna á vinstristjórnartíma er hún hins vegar um 20% á ári. Og svo virðist sem við munum áfram lifa við verðbólgu næstu árin og jafnvel áratugina, eins og við höfum gert í rúma þrjá undanfarna áratugi.

Vitanlega er óhugnanlegt að búa við verðbólgu, sem tvöfaldar verðlagið á aðeins einu kjörtímabili, eins og nú virðist ætla að verða reynslan. Það má áreiðanlega minnka núverandi verðbólgu um helming og koma henni niður í 10% á ári. En spurningin er sú, hvort það þýði nokkuð að reyna að koma henni enn neðar. Oft hefur það verið reynt og ekki tekizt.

Hæfileg verðbólga, helzt innan við 10% á ári, hefur sínar ljósu hliðar. Hún er merki um töluverðan hagvöxt og næg verkefni í atvinnulífinu. En skuggahliðarnar eru alvarlegar. Í fyrsta lagi skekkir hún smám saman gengi krónunnar og veldur skyndilegum kollsteypum hennar. 0g í öðru lagi rýrir hún ört ellilífeyri og annan sparnað.

Verðbólgan fylgir okkur, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þar með er ekki sagt, að við eigum að leggja árar í bát. Við þurfum stöðugt að beita gamalkunnum ráðum til að hamla gegn henni. Og við þurfum líka að leita nýrra ráða, sem kunna að henta íslenzkum aðstæðum.

Fljótandi gengi krónunnar og almenn vísitölutrygging fjárskuldbindinga hefur hvort tveggja verið nefnt, en aldrei í nægilegri alvöru. Efnahagssérfræðingar okkar mættu gjarna kanna þessar tvær leiðir ofan í kjölinn.

Laun og verð eru beint og óbeint vísitölutryggð. Hví skyldu víxlar, lán og aðrar fjárskuldbindingar ekki einnig vera vísitölutryggðar? Með því mætti loka hring vísitölukerfisins. Ellilaunaþegar og sparendur mundu tapa minna og steinsteypusafnarar græða minna. Núverandi dagprísar á launum og verði mundu yfirfærast á aðra peningaveltu í landinu.

Með sama hætti mætti setja dagprísa á krónuna í viðskiptum við útlönd eins og margar þjóðir hafa gert með góðum árangri. Hingað til hafa útflutningsatvinnuvegir og iðnaður átt í sífelldum erfiðleikum út af skökku gengi. Og hinar stórfelldu gengislækkanir, sem jafnan hafa reynzt nauðsynlegar, hafa sett þjóðfélagið á annan endann. Hví ekki bara lækka krónuna jafnt og þétt án allra kollsteypa, – taka upp fljótandi gengi að erlendri fyrirmynd.

Svona stórtækar hugmyndir er ekki unnt að framkvæma í einu vetfangi. Menn þurfa aðlögunartíma. Vísitölutryggingu fjárskuldbindinga mætti t.d. koma upp á fjögurra ára tímabili, þannig að fjórðungur vísitölunnar kæmi til framkvæmda á nýjar fjárskuldbindingar fyrsta árs og síðan fjórðungur til viðbótar á hverju ári.

Menn hafa tilhneigingu til að afgreiða svona hugmyndir með því að yppta öxlum. En höfum við lengur efni á að neita að kanna þær ofan í kjölinn?

Jónas Kristjánsson

Vísir