Dæmi um valdalosta

Greinar

Mikla athygli vakti frásögn Dagblaðsins á laugardaginn af tilraunum ríkisvaldsins til að græða 356 þúsund krónur á heyrnardeyfu ungs drengs. Mál þetta er dæmigert um kerfið og embættismenn þess.

Heyrnardeyfa drengsins er þess eðlis, að venjulegt heyrnartæki dugir honum ekki til náms í almennum skólum. Fyrir 369 þúsund krónur er hins vegar unnt að kaupa sérstakt tæki, sem gerir honum þetta kleift.

Ef drengurinn fær tækið, getur hann lifað venjulegu lífi og fengið sams konar menntun og aðrir fá. Að öðrum kosti verður hann sennilega að fara í heyrnleysingjaskólann, þótt hann eigi þangað ekki erindi.

Sá skóli er miðaður við algert heyrnarleysi. Mest rækt er þar lögð við að kenna börnum að lesa, en það kann þessi drengur þegar. Má því búast við, að án hins dýra heyrnartækis muni drengurinn dragast töluvert aftur úr venjulegum börnum.

Nú skyldu menn ætla, að svokallað velferðarríki hafi efni á að kaupa svona tæki handa drengnum. Þetta ríki hefur að minnsta kosti efni á að senda menn í hrönnum til afvötnunar í önnur lönd fyrir hálfa milljón á mann.

En drengurinn nýtur ekki sömu mannréttinda og brennivínsmennirnir. Hann verður sjálfur að borga sínar 369 þúsund krónur. Og þar á ofan vill ríkið hafa af honum 356 þúsund krónur í lúxustoll, vörugjald og söluskatt.

725 þúsund krónur á drengurinn samtals að borga fyrir heyrnartækið. Virðist svo sem kerfið hafi nú loksins fundið breiða bakið í þjóðfélaginu, er það ætlast til, að drengurinn borgi langleiðina einn afvötnunarleiðangur fyrir ríkið ofan á sjálft tækisverðið.

Margt er búið að reyna til að hafa kerfið og embættismenn þess ofan af græðginni í þessu máli, en ekkert hafði enn gengið, þegar fréttin birtist. Einhver mannvitsbrekkan í kerfinu hafði meira að segja fundið upp á því að hækka heyrnartækið upp í lúxustoll.

Þeim, sem fylgjast með kerfinu og embættismönnum þess, er vel kunnugt um, að lög og reglur eru iðulega þverbrotnar til að þóknast gæðingum kerfisins. Á sama tíma hanga embættismennirnir dauðahaldi í bókstafnum, ef almenningur á í hlut.

Það er eins og menn ummyndist af umgengni við völdin í þjóðfélaginu. Dagfarsprúðir menn verða að hreinum ómennum. Einstaka menn virðast beinlínis haldnir valdalosta. Og er þeirri kenningu hér haldið fram að vel athuguðu máli.

Embættismenn á ótal stöðum í kerfinu virðast hafa órjúfanlega samstöðu gegn drengnum, sem hér er fjallað um. Úr þeirri samstöðu virðist aðeins hafa kvarnast á einum stað. Heyrnardeild Heilsuverndarstöðvarinnar hefur hjálpað aðstandendum drengsins um myrkviði kerfisins, þar sem hver vísar á annan.

Ábyrgðin liggur endanlega hjá Tómasi Árnasyni fjármálaráðherra, Ragnari Arnalds menntamálaráðherra og Magnúsi Magnússyni tryggingaráðherra. Ef þeir nenna, er leikur einn að kippa málinu í liðinn. Og slíkri lagfæringu ætti raunar að fylgja opinberar ákúrur í garð þeirra embættismanna, sem ekki hafa reynzt starfi sínu vaxnir.

Ráðherrarnir eru ekki aðeins hvattir til að gefa eftir ránsfeng ríkisins, heldur einnig að láta ríkið beinlínis kaupa tækið. Þeir hafa áreiðanlega séð það svartara, þegar gæðingarnir eru annars vegar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið