Byrjið á útkomunni.

Greinar

Hér á landi þarf að taka upp þann sið við gerð fjárlaga að ákveða fyrst, hve há þau megi vera. Síðan á að skipta fjárhæðinni milli málaflokka og sjá svo, hvaða rúm er fyrir ný verkefni innan hvers málaflokks.

Enn tíðkast hér sá gamli og úrelti siður að safna saman kröfum ráðuneyta, opinberra stofnana, þingmanna og þrýstihópa og búa til úr þessu fyrsta uppkast fjárlagafrumvarpsins.

Þegar allar þessar kröfur eru lagðar saman, kemur að sjálfsögðu út allt of há upphæð, sem reynt er að skera niður. En sá niðurskurður reynist jafnan erfiður, því að enginn vill missa þann spón úr askinum, sem kominn er á skrá.

Þetta leiðir til þess, að ríkisstjórnin freistast til að leggja fram of há fjárlagafrumvörp, sem þingmenn hækka síðan nokkuð til að friða ýmsa þrýstihópa.

Með þessum hætti seilist ríkið til sífellt stærri hlutar af fjármunum þjóðarinnar. Á tímum viðreisnarstjórnarinnar tók ríkið um og innan við 20% af þjóðarframleiðslunni til sinna þarfa, en nú er ríkið komið upp fyrir 35% þjóðarframleiðslunnar í nokkrum stórum stökkum á fáum árum.

Þar með hefur þjóðarbúið í heild riðlazt. Minni hluti þjóðarframleiðslunnar er aflögu handa almenningi og atvinnulífi. Kjarabarátta harðnar og taprekstur eykst í atvinnulífinu. Jafnframt leiðir útþensla ríkisins til halla á viðskiptum við útlönd og hrikalegra skuldabagga þjóðarinnar gagnvart útlöndum.

Víð gerð fjárlaga á hins vegar fyrst að meta, hve mikil þjóðarframleiðslan verði og áætla ríkinu einhvern hóflegan hluta hennar. Þar með er fengin niðurstöðutala fjárlaganna, áður en kallað er á kröfugerð ráðuneyta, stofnana, þingmanna og þrýstihópa.

Þegar niðurstöðutalan er fengin, er unnt að skipta henni milli einstakra málaflokka, bæði í ljósi reynslunnar og í ljósi breyttra aðstæðna, sem valda misjafnri áherzlu á málaflokkana.

Að þessu loknu sér hver ráðherra, hve mikið fé verður til umráða í málaflokki hans. Hann reynir þá að spara sem mest í rekstri til að sem mest fé verði aflögu til framkvæmda og nýrrar þjónustu. Í slíku kerfi er litið rúm fyrir óskhyggju og kröfuhörku, því að hvert ráðuneyti þarf að spara á einu sviði það, sem það sóar á öðru.

Jafnframt þarf að leggja áherzlu á, að þingmenn, sem fá fjárlagafrumvarpið til meðferðar og eru með vasa fulla af kröfum þrýstihópa, leggi helzt ekki fram tillögur um hækkun einstakra liða, nema koma um leið með jafnháar tillögur um niðurskurð á öðrum liðum.

Kerfi það, sem hér hefur verið lýst í stórum dráttum, mundi margefla aðhald með ríkisbúskapnum og sporna gegn því, að útþensla ríkisbáknsins setti þjóðarbúið á höfuðið. Þetta væri ein virkasta leiðin til að stöðva þá öfugþróun efnahagsmála, sem einkennt hefur síðustu ár hér á landi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið