Íslendingum fjölgar jafnt og þétt með hverju árinu. Nýjar þúsundir koma á vinnumarkaðinn á hverju ári. Við hljótum að íhuga, hvaða lífskjör eru í náinni framtíð búin þeim fjölskyldum, sem nú er verið að stofna til. Með hvaða hætti getur atvinnulíf þjóðarinnar séð okkur og afkomendum okkar fyrir enn betri lífskjörum en við búum við í dag?
Þeim mun meiri kröfur, sem við gerum til lífskjara í framtíðinni, þeim mun meira máli skipta hugleiðingar af þessu tagi. Við hljótum að spyrja, hvort Íslendingum geti endalaust fjölgað, án þess að lífskjörin taki að rýrna varanlega. Og við verðum að meta möguleika atvinnulífsins á að soga til sín stóraukna starfskrafta.
Útþenslumöguleikarnir í útgerð og fiskvinnslu eru takmarkaðir. Fiskistofnar Íslandsmiða eru í vörn. Aukin sókn í þessa hætt komnu stofna gerir aðeins illt verra, af því að hún leiðir til meiri kostnaðar við að ná hverju fiskitonni á land, það er að segja til minni framleiðni og verri lífskjara.
Ekki er ráðlegt að búast við meiru af væntanlegri útfærslu efnahagslögsögu okkar á hafinu en því, að hún stöðvi samdrátt fiskistofnanna. Vafasamt er, að hún gefi möguleika á aukinni sókn, án þess að framleiðnin minnki.
Enn síður er líklegt, að landbúnaðurinn og vinnsla landbúnaðarafurða geti tekið við nýjum starfskröftum. Hlutfall starfsmanna í þessari tiltölulega óarðbæru grein er of hátt hér á landi í samanburði við nágrannalöndin. Nokkur von er þó á, að nýjar búgreinar eins og loðdýrarækt, ylrækt og fiskirækt geti skapað dálítið mótvægi gegn flóttanum frá hinum hefðbundna landbúnaði. En í heild er ekki unnt að gera ráð fyrir möguleikum á fjölgun starfskrafta í landbúnaði, nema á kostnað lífskjara þjóðarinnar.
Árum saman hafa augu sérfræðinga einkum beinzt að möguleikum hins almenna iðnaðar. Þeir telja nýja iðnvæðingu vera grundvallarforsendu þess, að atvinnulífið geti á næstu árum og áratugum útvegað verkefni handa öllum., En gallinn er sá, að iðnaðurinn hefur til skamms tíma verið annars flokks atvinnugrein. Pólitísk forréttindi frumframleiðslugreinanna hafa hindrað nægilegan straum fjármagns til iðnaðarins. Og ráðgerður aðlögunartími iðnaðarins að tollalækkunum innfluttra iðnaðarvara hefur að töluverðu leyti verið eyðilagður.
Tímabært er orðið að snúa dæminu við og gera iðnaðinn að forgangsgrein. Við þurfum að efla bæði smáiðnað og stóriðju. Einkum þurfum við að opna betur augu okkar fyrir möguleikunum í stóriðjunni, því að jarðhitinn og vatnsorkan gefa okkur gott forskot fram yfir aðra í uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Stóriðja og orkubúskapur af því tagi er líklegust allra atvinnugreina til að efla lífskjörin í landinu.
Þótt gengislækkunin hafi bægt vofu atvinnuleysis frá að sinni, erum við ekki úr allri hættu enn. Þessi staðreynd ætti að hvetja okkur til að hugsa meira um framtíðina og spá betur í, hvernig við getum hagnýtt okkur auðlindir náttúru, hugar og handa til að tryggja, að landið verði áfram byggilegt fyrir þá Íslendinga, sem stöðugt eru að bætast í hópinn.
Jónas Kristjánsson
Vísir