Jackson Diehl segir í Washington Post, að George W. Bush Bandaríkjaforseti hafi fyrir ári samþykkt á fundi með Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, að Sharon mætti einhliða innlima alla Jerúsalem og 7% af vesturbakka Jórdans og reisa þar múr á landi, sem hingað til hefur verið talinn hluti af Palestínu. Þetta er auðvitað í ósamræmi við svonefnt Vegakort til friðar, sem Bandaríkin stóðu að á sínum tíma. En samþykki Bush fyrir ári skýrir, hversu ósveigjanlegur Sharon hefur verið í samningaviðræðum. Hann hefur á bak við tjöldin fengið samþykki fyrir einhliða aðgerðum Ísraels.