Búktalstilraun kommissara

Greinar

Hinir pólitísku kommissarar í útvarpsráði eru stöðugt að færa sig upp á skaftið. Þeir gera harða hríð að starfsmönnum stofnunarinnar fyrir meint frávik frá því, sem meirihluti útvarpsráðs telur rétta pólitíska línu. Síðustu atburðir benda til þess, að ráðið hyggist með góðu eða illu stunda búktal í gegnum fréttamenn útvarps og sjónvarps.

Þessi aukna afskiptasemi gerir vitanlega vinnuskilyrðin á fréttastofunum óbærileg. Fréttamenn kvarta yfir stöðugum flaumi tilskipana frá útvarpsráði. Þeim finnst, að þeir geti ekki lengur starfað í samræmi við eigin samvizku. Þeir geta ekki lengur staðið vörð um frjálsa fjölmiðlun, ef útvarpsráð heldur áfram að herða ritskoðunarstefnu sína.

Þess vegna risu allir fréttamennirnir upp utan einn og mótmæltu síðustu tilraun útvarpsráðs til að hræða þá til hlýðni. Þeir eiga virðingu skilið fyrir einbeitni sína. Án slíkrar samstöðu um verndun frjálsrar fjölmiðlunar er voðinn vís.

Tilefnið var óvenju gróft. Útvarpsráð hafði komið á framfæri við fjölmiðla órökstuddum dylgjum um rangar frásagnir fréttamanna af byltingunni í Chile. Þessi aðferð til nöldurs er ný af nálinni og bendir til þess, að ráðið hafi ætlað að hræða fréttamennina til hlýðni.

Allir yfirmenn stofnunarinnar standa með fréttamönnunum í þessu máli og hafa sent útvarpsráði yfirlýsingu um það efni. Þessi óhlýðni æsti upp kommissarana í ráðinu, svo að þeir fóru að hafa í hótunum á fundi ráðsins. Eitthvað mikið hefur gengið á, úr því að annar eins geðprýðismaður og útvarpsstjórinn gengur út af fundi ráðsins með nánustu samstarfsmönnum sínum.

Meirihluti útvarpsráðs hyggst breyta þjóðfélaginu og kann sér ekki hóf í þeirri viðleitni. Þetta er gamla sagan, þegar pólitískir ofsatrúarmenn komast til áhrifa. Í útvarpsráði þykjast þeir vita allt betur en fagmennirnir og eru óhræddir við að gera fréttastofurnar óstarfhæfar, ef það þjónar pólitískum tilgangi þeirra.

Fréttamaður getur ekki tekið fjarstýringu af þessu tagi. Hann verður sjálfur að trúa því, að vinnubrögð hans séu heiðarleg og réttlát. Sé hann látinn vinna á þann hátt, að það stríðir gegn samvizku hans, er búið að eyðileggja hann sem fréttamann. Meirihluti útvarpsráðs má ekki komast upp men slíkt.

Æskilegasta lausn málsins er, að formaður útvarpsráðs, höfuðsmaður kommissaranna, segi af sér. En það fæst hann vitanlega ekki til að gera, meðan niðurrifsstarfi meirihlutans er ólokið. Önnur lausn gæti falizt í því, að ráðið fengi sjálft að annast leiðréttinga- og athugasemdaþátt á góðum tíma í dagskránni, til mótvægis við heiðarleg vinnubrögð fréttamannanna.

Allir þeir, sem unna frjálsri fjölmiðlun og telja hana nauðsynlega í lýðræðislegu þjóðfélagi, verða nú sem einn maður að styðja við bak fréttamanna og yfirmanna útvarps og sjónvarps, og reyna þannig að stuðla að því, að búktalstilraunir hins volduga útvarpsráðs mistakist. Nú ríður á, að kommissararnir taki ekki öll völd í þessari mikilvægu stofnun frjálsrar fjölmiðlunar.

Jónas Kristjánsson

Vísir