Brúarárskörð

Frá Hlöðuvöllum um Brúarárskörð að Úthlíð.

Á kortinu er sýnd greiðfær gönguleið með ánni austanverðri. Reiðleiðin er vestan árinnar og er ógreiðfær vegna þrengsla og úrrennslis. Ef hún er farin, þarf síðan að fara austur yfir Brúará neðan Arnarhóls, þegar komið er niður úr skörðunum, og fara austur á gönguleiðina, sem þar er orðin jeppaslóð. Á leiðinni milli Hlöðuvalla og Brúarárskarða er á kortinu sýnd jeppaslóð, sem fylgir klettabrík í norðvesturjaðri Rótarsands. Betra og styttra er að fara beint yfir sandinn og stefna á efra mynni Brúarárskarða.

Brúarárskörð eru aldagömul þjóðleið mili Hlöðuvalla og Bláskógabyggðar. Ég hef aldrei farið reiðleiðina, en veit, að hún er þröng og erfið. Verður ekki farin með rekstur, aðeins einhesta. Nauðsynlegt er að hafa staðkunnugan leiðsögumann. Brúarárskörð eru djúpt og hrikalegt gljúfur milli Högnhöfða og Rauðafells, þar sem vatnsmikil Brúará vellur fram. Í gilinu skiptast á grastorfur og skriður, þar sem feta verður varlega. Á leiðinni um gljúfrið er best að fylgja rim sem liggur milli gljúfursins og Kúadals, djúprar og víðáttumikillar kvosar. Fallhæð Brúarár í gegn um skörðin er um 200 metrar, innst er hún í 420 metrar, en 220 metrar, þar sem hún kemur fram úr gljúfrinu. Ég ítreka: Hafið með ykkur fylgdarmann.

Förum frá Hlöðuvöllum í 460 metra hæð til suðurs í norðvesturjaðri Rótarsands eftir jeppaslóð. Förum síðan suður úr slóðinni yfir sandinn í átt að Brúarárskörðum. Síðan suður um skörðin og ofan þeirra að austanverðu. Neðan skarðanna förum við suðsuðaustur um Úthlíðarhraun, þar sem við komum á jeppaslóð. Henni fylgjum við til suðausturs að þjóðvegi 37 við Miðhús og Úthlíð í Bláskógabyggð, í 140 metra hæð.

12,3 km
Árnessýsla

Erfitt fyrir hesta

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Skessubásavegur, Hlöðufell, Miðfell, Helludalur, Hellisskarð, Farið, Miðdalsfjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins