Kosningaúrslitin í Svíþjóð voru sanngjörn og eðlileg. Það er ekki vegna þess, að jafnaðarmenn hafi staðið sig svo illa við stjórnvölinn. Hins vegar var 44 ára óslitinn valdatími þeirra einfaldlega orðinn of langur.
Það er meira að segja spurning, hvort unnt sé að tala um lýðræðisríki, þegar sami flokkurinn er við völd í hartnær hálfa öld. Það getur kannski gengið í einstaka borgarstjórn, en ekki í ríkisstjórn heillar þjóðar.
Í rauninni hafði stjórn jafnaðarmanna í Svíþjóð lengst af staðið sig mjög vel. Hún hefur náð frábærum árangri í að sameina félagslegt réttlæti og styrkan þjóðarhag. Svíar eru nú komnir fram úr Bandaríkjamönnum og Kanadamönnum sem auðugasta þjóð í heimi.
Borgaraflokkarnir þrír, sem nú byrja að reyna að mynda stjórn, eiga við ramman reip að draga. Þeir, sem hafa verið svona lengi úti í kuldanum, hljóta jafnan að eiga erfitt með að taka við. Það eitt sýnir, að menn verða að skipta örar um stjórn en Svíar hafa gert.
Borgaraflokkarnir hafa engin þau ítök í valdakerfi Svíþjóðar, er geri þeim kleift að setja verulega nýtt svipmót á þjóðfélagið. Embættismennirnir eru flestir jafnaðarmenn og í skriffinnskuþjóðfélagi ráða þeir oft meiru en stjórnmálamennirnir.
Við þessa takmörkuðu möguleika hlýtur helzta markmið borgaraflokkanna að vera að sýna þjóðinni fram á, að þeir geti líka stjórnað landinu, þótt þeir geri það á mjög svipaðan hátt og jafnaðarmenn hafa gert.
Borgaraflokkarnir hafa næga hæfa menn í röðum sínum til að mynda traustvekjandi ríkisstjórn. Meiri vandi verður að samræma hin ólíku sjónarmið flokkanna þriggja, sem spanna yfir svipað svið og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur spanna hér á landi.
Miðflokkurinn minnir nokkuð á íslenzka Framsóknarflokkinn. Hægfara flokkurinn minnir á Íhaldsflokkinn gamla og Þjóðarflokkurinn á Frjálslynda flokkinn, en þessir tveir flokkar sameinuðust hér á landi í Sjálfstæðisflokknum.
Það væri athugandi fyrir sigurvegara sænsku kosninganna að kynna sér reynslu Íslendinga. Hægfara flokkurinn og Þjóðarflokkurinn geta kynnt sér, hvernig tekizt hefur að samræma sjónarmið þeirra í einum flokki, án þess að nokkru sinni hafi komið til alvarlegs klofnings.
Og borgaraflokkarnir þrír gætu kynnt sér reynsluna af hliðstæðu samstarfi íslenzku stjórnarflokkanna, bæði til að læra af kostunum og til að forðast gallana. Slík atriði hljóta að vera mjög þung á metunum, þegar menn hefja í fyrsta sinn samstarf í ríkisstjórn.
Líklegt má telja, að Miðflokkurinn fái í gegn í samstarfinu þá stefnu Fälldins, að frekari kjarnorkuver verði ekki reist að sinni, gegn því, að hinir flokkarnir tveir fái í gegn ýmis atriði borgaralegrar hugmyndafræði, svo sem stöðvun á útþenslu ríkisbáknsins Og aukna áherzlu á borgaraleg réttindi í stað mauraþúfusjónarmiða
Efnislega verður samt ekki mikill munur á nýju stjórninni og hinni gömlu. Munurinn verður fremur í stíl en innihaldi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið