Breytingar – til hvers?

Greinar

Við lifum um þessar mundir tíma mikilla breytinga á skólamennsku. Hvarvetna er verið að gera tilraunir með nýja kennsluhætti. Skólarnir reyna að gefa nemendum nýtt og betra vegarnesti. Kennarar eru að hverfa frá aðferðum ítroðslu yfir í margslungna viðleitni til að virkja áhuga nemendanna.

Markmiðið að baki þessara tilrauna er að gera unga fólkið hæfara til að lifa í þjóðfélagi nútímans, bæði frá efnislegu og andlegu sjónarmiði. Í stað þess að þylja upp staðreyndir til að leggja á minnið eru kennarar farnir að þjálfa vinnubrögð nemenda, svo að þeir geti í framtíðinni jafnan mætt nýjum verkefnum og nýjum aðstæðum á skynsamlegan hátt. Er þá í senn lögð áherzla á sjálfstæð vinnubrögð og á getu til að starfa með öðrum að sameiginlegu verkefni.

Enn vitum við ekki, hvaða árangri þessir nýju kennslustraumar ná. Sumir telja þá lítils nýta og vilja jafnvel kenna þeim um ýmis vandamál, sem gagnrýnendur sjá í skólakerfinu. Og slík vandamál eru áreiðanlega til í hrönnum.

Menn benda réttilega á, að fjöldi manna útskrifast nú orðið sem stúdentar án þess að kunna neina frambærilega stafsetningu og hvað þá rökrétta framsetningu hugsunar sinnar á íslenzkri tungu. Renn benda líka réttilega á, hve algengt er, að langskólagengnir nemendur hafi setið undir kennslu í erlendu tungumáli í fimm til átta ár án þess að geta síðan notfært sér þann lærdóm.

Gagnrýnendur benda á, að fólk, sem þarf skyndilega af atvinnuástæðum eða öðrum ástæðum að læra erlent tungumál, getur oftast gert það með stuttu og snörpu átaki með margfalt betri nýtingu vinnutímans en gerist og gengur í skólum landsins. Svona mætti lengi rekja þá gagnrýni, sem skólakerfi okkar sætir.

Því er jafnvel haldið fram, að skólarnir séu aðallega geymslustofnanir fyrir börn og unglinga, svo að foreldrarnir þurfi minna að sinna þeim og geti unnið meira úti en ella. Jafnframt er því haldið fram, að breytingar á kennsluháttum og skólahaldi séu liður í viðleitni skólamanna til að bæta hag sinn, minnka kennsluskyldu sina, fjölga hærra launuðum stjórnunarstörfum í kerfinu og svo framvegis.

Loks er þess krafizt, að skólarnir sýni á áþreifanlegan hátt, að fjármagn þeirra og fyrirhöfn beri frambærilegan árangur.

Ástæðulaust er að taka slíka gagnrýni of létt. Það er ýmislegt til í því, sem fundið er skólum landsins til foráttu. Skólamenn verða að vega og meta gagnrýnina með opnum huga og kunna við henni góð og gild svör.

Ekki verður þó betur séð en að hinir nýju straumar í skólamálum feli einmitt í sér viðleitni til að rjúfa stirðnaða og gagnslitla kennsluhætti og gera skólana hæfari til að ná þeim markmiðum, sem þeir eru kostaðir til að gera. Það er beinlínis ósanngjarnt að kenna tilraunastarfi og nýjungum um gamalkunnug vandamál, sem skólakerfið á við að glíma eins og aðrar stofnanir þjóðfélagsins.

Við vonum einmitt, að hræringarnar í skólamálunum muni smám saman leiða til virkara skólastarfs, er endurgreiði þjóðfélaginu tilkostnaðinn í efnislegum og andlegum verðmætum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið