Bretar hertu enn þorskastríðið um helgina, þegar þeir létu dráttarskip og freigátur með hlöðnum og mönnuðum vélbyssum og eldflaugavörpum gera aðför að varðskipinu Baldri. Þessu fylgdu dólgslegar yfirlýsingar um, að nú yrði loks látið til skarar skríða.
Það virðist nú aðeins vera orðið tímaspursmál, hvenær hanastélspiltarnir, sem stjórna freigátunum, fara endanlega á taugum og byrja að skjóta. Klunnagangur þeirra og reiðiköst eru með þeim ólíkindum, að það getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér.
Það er orðið vafamál, hvort brezk stjórnvöld hafi nokkurn hemil á lávörðum flotamálaráðuneytisins og hvort hinir síðarnefndu hafa nokkurn hemil á hanastélspiltum freigátnanna.
Ef til vill eru Bretar fangar í neti eigin lyga. Það hendir slíka oft, ef þeir ljúga ört og skipulega, að þeir fara að trúa eigin lygum. Ef til vill trúa lávarðarnir helmingnum af skýrslum hanastélspiltanna og ef til vill trúa brezk stjórnvöld allri súpunni.
Ef þetta er rétt, á íslenzka ríkisstjórnin dálítinn þátt í ábyrgðinni. Hin sjúklega framkvæmdatregða hennar lýsir sér á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum. Hún hefur látið undir höfuð leggjast að senda Pétur Thorsteinsson í aðra hringferð um ríki Atlantshafsbandalagsins.
Hún hefði átt að láta vinna saman skýrslur, teikningar og kvikmyndir úr lofti til að sýna erlendum áhrifamönnum, svo að ekki færi á milli mála, hvernig árekstrar verða milli skipa á Íslandsmiðum. Þetta hefur hún ekki gert, enda telja brezk stjórnvöld sér kleift að halda áfram að ljúga sem fastast.
Varðskipsmenn væru í minni hættu, ef ráðamenn ríkja Atlantshafsbandalagsins tryðu upplýsingum Íslendinga. Þá gætu Bretar ekki leyft sér að færa sig upp á skaftið eins og þeir hafa verið að gera að undanförnu. En því miður er hvorugum aðilanum trúað og Bretar komast því upp með aðferðir sínar.
Hin sofandi ríkisstjórn okkar mundi stuðla mjðg að öryggi varðskipsmanna, ef hún léti nú taka saman sönnunargðgnin í skyndingu og otaði þeim að ráðamönnum ríkja Atlantshafsbandalagsins. Þegar þetta er ritað, erum við enn svo heppnir, að ekkert manntjón hefur orðið á miðunum . Ráðið getur því enn verið í tíma tekið.
Hin sjúklega framkvæmdatregða ríkisstjórnarinnar veldur því einnig, að hún hefur ekki enn lýst formlega yfir því, að fulltrúar Íslands muni hætta að sitja fundi með brezkum fulltrúum í hinu sameiginlega varnarbandalagi. Slík aðgerð jafngildir engan veginn úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu og er fullkomlega eðlileg eftir það, sem á undan er gengið.
Við verðum nú að horfast í augu við, að maður með veika aðstöðu, Callaghan utanríkisráðherra, er líklega að taka við af sterkum forsætisráðherra, Wilson. Callaghan neyðist sennilega til að vera með mannalæti gagnvart okkur til að styrkja stöðu sína heima fyrir. Við eigum því ekki von á góðu úr þeirri átt á næstunni.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið