Ríkisstjórnin tók sömu afstöðu og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd, þegar hún ákvað að veita brezku stjórninni stuttan frest, áður en stjórnmálasambandi ríkjanna yrði slitið.
Hið óvænta bréf Heaths, forsætisráðherra Bretlands, gaf tilefni til slíkrar frestunar Hugsanlegt var, að í bréfinu leyndust nýjar sáttaleiðir, sem bundið gætu enda á þorskastríðið. Alténd var trúlegt, að þetta framtak Heaths bæri vott um, að hann vildi ekki ganga út á yztu nöf í nýlendustefnu brezku stjórnarinnar í landhelgismálinu.
Því miður olli bréf Heaths vonbrigðum við nánari skoðun. Ekkert nýtt kemur fram í því og engin eftirgjöf er sjáanleg. Hann heldur fast við hina gömlu stefnu, að íslendingar verði að lofa að hætta að áreita brezka togara, ef Bretar kalli heim freigátur sínar.
Í bréfinu er einnig lagt til, að Bretar dragi sjálfviljugir úr sókn á Íslandsmið. Ekki verður séð, að þetta almenna orðalag gangi á nokkurn hátt lengra en tilslakanir þær, sem brezkir samningamenn voru áður búnir að gera í viðræðum við Íslendinga í vetur sem leið.
Það virðist því jafnljóst og áður, að Heath er ekki svo annt um samkomulag í þorskastríðinu, að hann vilji gefa neitt eftir til að ná sáttum. Í bréfinu felst fyrst og fremst sýndarmennska. Ætlunin er að láta líta svo út, að brezka stjórnin sýni sáttfýsi til hins síðasta, en fái engu áorkað vegna einstefnu Íslendinga. .
Þessari skoðun til stuðnings má líka benda á, að brezku herskipin hafa haldið áfram að reyna að stofna til árekstra við íslenzku varðskipin. Ef nokkur alvara hefði verið í bréfi Heaths, hefði hann látið flotaforingja sína hætta þessum hernaðaraðgerðum, að minnsta kosti rétt á meðan íslenzk stjórnvöld væru að skoða bréfið.
Með bréfi sinu var Heath ekki að hugsa um að gera úrslitatilraun til samkomulags. Hins vegar var hann að afla sér ástæðu til að geta sagt við umheiminn: Ég gerði mitt bezta. Og þetta hefur hann sennilega sagt við Luns, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, sem sótti hann heim í gær til að reyna að hafa vit fyrir honum.
Í rauninni er bréf Heaths til þess fallið að hleypa meiri hörku í deiluna en orðið er. Það sýnir, að hann kærir sig kollóttan um slit á stjórnmálasambandi ríkjanna og er aðeins að gæta þess að hafa sín gögn í lagi. Annars hefði hann sett út einhverja spotta í bréfinu og bannað ásiglingar meðan Íslendingar væru að grípa í þessa spotta.
Hinn litli áhugi Heaths á framhaldi stjórnmálasambands ríkjanna er merki um að landhelgisdeilan er komin á ákaflega alvarlegt stig. Enginn vonarneisti er sjáanlegur. Við verðum að vísu að nota frestinn fram að slitum til að hlusta á það, sem brezki sendiherrann hefur að segja. En því miður þarf ekki svartsýni til að spá því, að hann hafi ekkert efnislegt að segja.
Þessi hörmulega þróun er en ein sönnun þess, að við verðum að leggja ofurkapp á undirbúning hafréttarráðstefnunnar og reyna að flýta fyrir því, að við fáum undanþágulausa 200 mílna landhelgi án viðræðna og samninga við óforbetranlega þöngulhausa.
Jónas Kristjánsson
Vísir