Borgarstjórn versnar.

Greinar

Borgarfeður Reykjavíkur voru svo framsýnir fyrr á árum, að þeir létu borgina kaupa upp með skipulegum hætti allar jarðir í nágrenni byggðarinnar. Þess vegna á borgin nú nærri allt borgarlandið og getur skipulagt það að vild.

Borgarfeður Reykjavíkur voru svo framsýnir fyrr á árum, að þeir létu leggja hitaveitu í bæinn og tóku heimsforustu á því sviði um tíma. Jafnframt keyptu þeir jarðhitarétt til frambúðar, meðal annars að Nesjavöllum í Grafningi.

Borgarfeður Reykjavíkur voru svo framsýnir fyrr á árum, að þeir létu borgina reisa eigin raforkuver við Sogið. Síðan gerðu þeir helmingafélag við ríkið um stærri virkjanaáfanga á vegum Landsvirkjunar.

Borgarfeður Reykjavíkur voru svo framsýnir fyrr á árum, að þeir létu jafnan teikna í tæka tíð ný hverfi, þótt borgin stækkaði langt umfram landsmeðaltal. Þess vegna er nú til áætlun um byggð í Gufunesi og við Úlfarsfell.

Margt hefur mistekizt í skipulagi Reykjavíkur. En bezti kostur þess er losarabragurinn. Hvarvetna hafa verið skilin eftir opin svæði, bæði til útivistar og til hugsanlegra framtíðarþarfa, sem ekki voru ljósar á líðandi stund.

Í stórum dráttum hefur Reykjavík verið vel stjórnað á fimmtíu ára einveldistíma Sjálfstæðisflokksins. Sú stjórn lánaðist flokknum mun betur en aðild hans að landsstjórninni á sama tíma.

Síðan stjórnarandstaðan tók við Reykjavik fyrir rúmu ári, hefur lítið breytzt. Engin spilling hefur fundizt, er hefði getað grafið um sig á hálfri öld. Og sömu embættismenn og áður sjá um, að Reykjavik gangi eins og fremur vel smurð vél.

Í örfáum atriðum hefur stefna borgaryfirvalda breytzt og því miður sjaldnast til bóta. Segja má þó, að hinar nýju hugmyndir um frestun framkvæmda við Úlfarsfell og þéttingu byggðar á Seltjarnarnesi séu skynsamlegar.

En það er vandasamt að þétta byggðina, svo að vel fari. Ekki má til dæmis rjúfa samfelldar gönguleiðir innan um gróður úr bænum og upp í Heiðmörk, frá Laugarnesi inn Laugardal, frá Miklatúni inn Miklubraut og frá Skerjafirði inn Fossvogsdal, og síðan áfram upp með Elliðaám.

Þétting byggðar kemur helzt til greina, ef unnt reyndist að semja um, að innanlandsflugið flytti úr bænum. Að öðrum kosti er vænlegast að reisa íbúðir ofan á verzlunarhverfin í miðbænum. Og á auðu svæðunum þarf að taka með silkihönzkum, því að mannvirki á þeim verða ekki aftur tekin.

Veruleg umskipti til hins verra hafa orðið í orkumálum Reykjavíkur með hinum nýja meirihluta sem lætur ríkisstjórnina vaða yfir sig. Samningurinn um breytt eignarhlutföll í Landsvirkjun er hreinn fíflskapur frá sjónarhóli Reykjavíkur.

Reykjavík gat aðstoðað ríkið við að útvega öflugan eignaraðila um Kröflu án þess að fórna helmings hlutanum í Landsvirkjun. Ríkið gat látið Akureyri hafa af sínum hluta. Reykjavík hafði trompin á hendinni, en spilaði þeim öllum af sér.

Þar á ofan afsalar Reykjavík sér með samningnum rétti til myndarlegrar varmavirkjunar á Nesjavöllum, sem aðrir borgarfeður öfluðu með fyrirhyggju endur fyrir löngu. Jafnframt afsalar Reykjavik sér forgangi að raforku í vetur og bakar sér hættu á orkuskömmtun, sem aðrir borgarfeður höfðu bægt frá með fyrirhyggju endur fyrir löngu.

Ef borgarfeður fella ekki í haust samninginn um Landsvirkjun, er ljóst að þeir eru mun síðri borgarfeður en hinir, sem fyrir voru.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið