Böllin hafa kontínúerazt.

Greinar

Lítill vafi er á, að núverandi ríkisstjórn hefur á rúmlega eins árs ferli sínum sýnt hliðstæða léttúð í fjármálum og efnahagsmálum og næsta ríkisstjórn á undan sýndi á sínum ferli. Böllin hafa svo sannarlega kontínúerazt eins og í Kaupmannahöfn á einokunartímanum.

Þetta framhald léttúðar kom fyrst fram í fjárlagafrumvarpi ársins 1975. Nýja ríkísstjórnin notaði ekki tækifærið til að skera niður frumvarpið, áður en það var lagt fram. Nýkjörið alþingi notaði ekki heldur tækifærið og stækkaði meira að segja frumvarpið í sniðum við endanlega afgreiðslu þess.

Eftir síðustu áramót sáu menn, að þetta gat ekki gengið. Þá var ákveðinn 3500 milljón króna niðurskurður. Fjárveitinganefnd Alþingis treysti sér ekki, þegar á hólminn var komið, til meiri niðurskurðar en 2000 milljóna.

Síðan gekk boltinn til fjármálaráðuneytisins, sem treysti sér ekki einu sinni til að framkvæma þennan litla niðurskurð, sem alþingi hafði þó fallizt á. Svo leið fram á haustið og þá kom i ljós, að niðurskurðurinn var orðinn öfugur, – hallinn á fjárlögunum mundi nema tæplega 13OO milljónum á árinu.

Nú segir Seðlabankinn, að skuldasöfnun ríkisins við bankann sé þegar orðin 3500 milljónir á árinu. Þannig er 3500 milljón króna ráðgerður niðurskurður orðinn að 3500 milljón króna umframeyðslu.

Svona fer fyrir okkur, þegar enginn þorir að taka vettlingalaust á neinu. Allar heilögu kýrnar í kerfinu fá að keyra á fullu fram i þjóðargjaldþrot. Alls staðar er látið undan þrýstihópum til þess að halda friðinn.

Seðlabankinn hefur núna slegið 7500 milljónir króna i útlöndum til þess að fresta gjaldþrotinu og gefa ríkisstjórn og alþingi svigrúm til að hætta allri léttúð og fara að horfast i augu við kaldan raunveruleikann.

Seðlabankinn lét ekki hjá líða í björgunaraðgerðum sinum að benda ríkisstjórn og Alþingi á, hvað aflaga hafi farið. Höfuðvandamálið væri greiðsluhalli ríkissjóðs og óhófleg fjármögnun hálfopinberra sjóða og opinberra framkvæmda.

Svo litla trú hefur Seðlabankinn á ráðamönnum þjóðarinnar, að hann þurfti sérstaklega að taka fram, að hið nýja 7500 milljón króna lán yrði að endurgreiða!

Ennfremur taldi bankinn sig þurfa að taka fram, að lánið ætti ekki að fara til framkvæmda. Ef til vill hefur bankinn haft i huga Borgarfjarðarbrúna og aðra slíka óskhyggju, sem veður uppi hjá léttúðugri ríkisstjórn, sem telur sig þurfa að keppa við yfirboð léttúðugrar stjórnarandstöðu.

Böllin hafa kontinúerazt. En nú er gleðskapnum lokið. Seðlabankinn hefur fengið útlendinga til að greiða til bráðabirgða veizluhaldavíxilinn. Nú hafa ráðamenn fengið svigrúm til að safna kjarki og grípa til þeirra ráðstafana, sem dugað geta til að koma útgjöldum og tekjum rikis og þjóðar í jafnvægi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið