Þegar útgerðin gengur illa, kvarta ráðamenn hennar við stjórnmálamennina og fá yfirleitt góða áheyrn. Útgerðin er nefnilega með bezt skipulögðu þrýstihópum í landinu og hefur mikil áhrif á þingi.
Stjórnmálamennirnir fela Þjóðhagsstofnuninni að kanna málið. Hún skoðar rekstrar- og efnahagsreikninga útgerðar og fiskiðnaðar og jafnvel bókhald þeirra. Hún kemst venjulega að raun um, að kvartanirnar séu á rökum reistar.
Hagfræðingarnir reikna út, hve mikið þurfi að fella gengið til að koma rekstri útgerðar og fiskiðnaðar upp í núll að meðaltali. Þá kemur strax babb í bátinn. Gengislækkunin kemur útgerðinni ekki að gagni, þar sem ranglátar hlutaskiptareglur taka ekki tillit til núverandi tækjakostnaðar og olíukostnaðar útgerðarinnar.
Næsta skref í þessum menúett er að fara í kringum hlutaskiptin. Það er gert með því að láta gengislækkunina ekki endurspeglast að fullu í hækkuðu fiskverði til útgerðar og sjómanna.
Í staðinn er fiskvinnslan látin greiða sífellt meira í sjóði, sem létta undir með rekstri útgerðarinnar. Þannig greiðir vinnslan nú orðið hundruð milljóna á ári til niðurgreiðslu á olíu til fiskiskipa og til greiðslu á afborgunum, vöxtum og tryggingum skipanna.
Með þessum hætti hefur verið byggt upp flókið og spillt millifærslukerfi, sem gagnar þeim mest, sem mestri olíu eyða og mest skulda, á kostnað hinna, sem fara sparlega með olíu og halda skuldum sínum hóflegum.
Yfirleitt tekst að ná afkomu útgerðar og fiskiðnaðar úr mínus og upp á núllpunkt með þessu flókna kerfi gengislækkunar, fiskverðshemlunar og millifærslna.
En meira geta stjórnmálamennirnir ekki gert fyrir sjávarútveginn, því að þá er öðrum þrýstihópi að mæta, sem er enn valdameiri. Af eðlilegum ástæðum berjast alþýðusamtökin gegn gengislækkunum, sem lækka lífskjörin, og tekst jafnan að hindra, að þær verði nægilega miklar.
Þannig safnast ekki fyrir auður í útgerðinni til kaupa á nýjum skipum til jafnrar og þéttrar endurnýjunar flotans. Stjórnmálamennirnir svipast þá um eftir leiðum til að bjarga þessu.
Venjulega leysa þeir málið með því að auka ýmiss konar fjárhagslegar fyrirgreiðslur til útgerðarinnar umfram fyrirgreiðslur til venjulegrar starfsemi í landinu. Þeir útvega fé til meiri og meiri lána, betri og betri lánakjara, hækkun hlutfalls lána af fjárfestingarkostnaði og æ sjálfvirkari lána.
Meðan aðrir aðilar í þjóðfélaginu verða að leggja fram 40-75% eigið fé til fjárfestingar og aðeins með veikri von í lánum, þarf útgerðin ekki að leggja fram nema 10-20% eigið fé og í sumum tilvikum enn minna. Hitt fær hún sjálfkrafa lánað, með óeðlilega lágum vöxtum í samanburði við aðra vexti í þjóðfélaginu.
Þetta gerir vissulega vandræðamönnum kleift að kaupa skip fyrir lítið og taka þátt í bókhaldsleik millifærslukerfisins. En skip eru alténd keypt og þar með gengur hið sérkennilega dæmi upp.
Þannig er orðinn hálfgildings ríkisrekstur á útgerðinni. Hún er ekki lengur sjálfstæður atvinnuvegur heldur bókhaldsatriði hins opinbera.
Jónas Kristjánsson
Vísir