Fólk hefur áreiðanlega gott af því að fara snemma að sofa. “Morgunstund gefur gull í mund”, segir í gömlu máltæki. Hitt er svo enn áreiðanlegra, að hið opinbera á ekki að reyna að hafa vit fyrir fólki með valdboði, hvorki í þessu efni né öðrum hliðstæðum efnum.
Nú eru liðnir rúmir tveir mánuðir síðan Steingrímur Hermannsson dómsmálaráðherra lét rýmka opnunartíma veitingahúsa og skemmtistaða. Mega menn nú vera þar til klukkan þrjú á nóttu. Þetta skref til aukins frjálsræðis virðist ekki hafa valdið neinum sérstökum vandamálum.
Nætursamkvæmi eru mjög vinsæl og séríslenzk fyrirbæri. Þau hafa hingað til verið haldin í heimahúsum íbúðahverfa, svefndrukknum nágrönnum til mikils ónæðis. Það er í allra þágu, að næturlífsfólki sé gefinn kostur á veizlum í þar til gerðu húsnæði, langt frá sofandi fólki.
Ekkert ætti í rauninni að vera því til fyrirstöðu, að skemmtistaðir, veitingahús, vínstofur, ölkrár og kaffihús séu opin meðan veitingamanni og gestum hans þóknast. Það er vandséð, að hið opinbera eigi einhverju uppeldishlutverki að gegna á þessu sviði.
Í Vestur-Berlín ríkir þetta frjálsræði. Þar hefur enginn ama af því, þótt sumar krár séu opnar til morguns, enda er drukkið fólk fremur sjaldséð þar í borg. Ætli það séu ekki einmitt bönnin, sem helzt framkalla spillinguna?
Vestur-Þjóðverjar eru snjallir á fleiri sviðum. Þeir hirða lítt um verkföll, en hafa samt þjóða hæst laun, stytztan vinnudag og lengst sumarfrí. Þeir hafa nær enga verðbólgu og eiga traustasta efnahag í heimi.
Athyglisvert er, að þar í landi er vín, sterkur bjór og áfengi selt í matvöruverzlunum innan um mjólk og barnamat. Enda segja margir, að sum önnur vara í slíkum búðum sé jafn hættuleg, svo sem tóbak og sykur.
Yfirvöld þar í landi telja sig hins vegar ekki eiga að hafa vit fyrir fólki með valdboði, hvorki í neyzlu áfengra drykkja, tóbaks né sykurs. Þess vegna má selja þessar vörur eins og aðrar vörur. Samt er áfengisbölið í Vestur-Þýzkalandi minna í sniðum en áfengisbölið á Íslandi.
Til skamms tíma voru áfengisvarnir á Íslandi í höndum bannstefnumanna. Auðvitað voru þær varnir stundum lítils virði og oftar neikvæðar. Það er ekki fyrr en til sögunnar koma menn, andvígir boðum og bönnum, en fylgjandi fræðslu og hælismeðferð, að eitthvað fór að ganga gegn bölinu.
Frjálslyndisskref Steingríms er virðingarverð viðurkenning á breyttum hugsunarhætti. Auðvitað gengu bannmenn af göflunum, en voru friðaðir með banni við hádegisdrykkju á vínbörum veitingahúsa. Þetta er afar fallega hugsað, því að auðvitað eiga menn ekki að drekka sterka drykki í hádeginu.
Þar af leiðandi hafa áhugamenn um þessa hádegisdrykkju aðra útvegi. Bannið hefur ekkert hagnýtt gildi, fremur en aðrar slíkar tilraunir hins opinbera til að hafa vit fyrir fólki með valdboði.
Hvítasykursát Íslendinga er með endemum og flýtir að minnsta kosti jafnmörgum í gröfina og ofneyzla áfengis gerir. Samt er leyft að selja sykur að vild. Og við skulum rétt nefna tóbakið, sem sennilega er skæðast af þessu öllu, en fæst alls staðar.
Í öllum þessum efnum eru fræðsla og upplýsingamiðlun til góðs, en boð og bönn til ills. Hið opinbera á því að hætta afskiptum af sölu áfengis og skemmtanalífi, en snúa sér í þess stað með fræðslu að rótum áfengisbölsins.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið