Bloggið fullorðnaðist í hruninu, þegar fjölmiðlar brugðust vikum saman. Lestur þess jókst verulega, Egill Helgason varð að fjölmiðli með yfir 13.000 heimsóknir á dag. Illugi Jökulsson og ég fáum hvor um 10.000 heimsóknir á dag, Teitur Atlason, Sigmundur Ernir og Björn Ingi Hrafnsson um 5.000 hver. Tugir bloggara eru lesnir í þúsundavís. Stjarnfræðilegar tölur í litlu samfélagi. Svona lestur á bloggi þekkist hvergi annars staðar. Sýnir, að úrelt er orðið að brenna fé í rándýrri fjölmiðlun hefðbundinni. Enginn á bloggið, það er frjálst. Það á skoðanirnar og tekur aukinn þátt í fréttum.