Ýmis athyglisverð og nytsamleg atriði eru í nýbirtri efnahagsstefnu þingflokks og framkvæmdastjórnar Framsóknarflokksins. Er raunar sorglegt, að þessi stefna skuli lítil áhrif hafa enn sem komið er haft á gerðir ríkisstjórnarinnar.
Sett er fram það markmið, að ríkisumsvif verði ákveðið hlutfall af þjóðartekjum, ekki meiri en 30% næstu tvö árin. Fyrir þessu markmiði er hægt að hrópa húrra, enda felur það í sér, að skattheimta verði ekki aukin.
Þessu markmiði má ná með því að semja fjárlagafrumvarpið að ráði Dagblaðsins, byrja á niðurstöðutölunum og enda á einstökum liðum. Þetta er þveröfugt við gildandi plagsið fjármálaráðuneytisins.
Áþreifanleg markmið af þessu tagi hefur skort átakanlega í störfum ríkisstjórna síðustu 15 árin. En Framsóknarflokkurinn lætur ekki við þetta sitja. Hann vill ákveða fjárfestingu í hlutfalli af þjóðartekjum, ekki yfir 25% næstu tvö árin.
Bæði þessi markmið mundu í framkvæmd nýtast vel í baráttunni gegn verðbólgu. Sama er unnt að segja um fleiri atriði í stefnuskrá Framsóknarflokksins og koma sum þeirra þægilega á óvart.
Alveg eins og Dagblaðið vill Framsóknarflokkurinn framkvæma raunvexti með því að verðtryggja höfuðstól lána, reikna afborganir og vexti af verðbættum höfuðstól og lækka jafnframt sjálfa vextina.
Í framkvæmd mundi þetta markmið Framsóknarflokksins greiða rothðgg spillingunni, sem hingað til hefur þrifizt í skjóli aðstöðu stjórnmálaflokkanna í bönkum og lánastofnunum. Lán mundu hætta að vera verðbólgugjafir.
Samanlagt mundu 30% ríkisumsvif, 25% fjárfesting Og raunvextir ná langt til að leggja niður þá verðbólgu, sem hér á landi er umfram verðbólgu i öðrum löndum. Loksins heyrir maður stjórnmálamenn segja eitthvað af viti!
En það er meira blóð í kúnni. Framsóknarflokkurinn vill afnema lögbindingu á framlögum til fjárfestingarsjóða og leggja reglur um arðsemis- og gagnsemismat til grundvallar útlánum. Það liggur við, að ekki sé hægt að trúa eigin eyrum.
Mikið óskaplega mundi þjóðarhagur batna, ef fjármagn yrði ekki lengur eyrnamerkt, heldur færi til þeirra framkvæmda, sem mestum arði skila. Og óskaplega er þægilegt að heyra þessi sannindi einmitt frá Framsókn.
Sumir gætu látið sér detta í hug, að fjármagn mundi grisjast nokkuð í landbúnaði, ef hið lofsverða markmið Framsóknarflokksins næði fram að ganga. Samt heggur flokkurinn enn í sama knérunn:
Hann vill, að niðurgreiðslur verði ekki auknar umfram það, sem nú er, og að útsöluverð landbúnaðarafurða sé sem næst verði til framleiðenda. Það endar bara með því, að Framsóknarflokkurinn tekur upp stefnu Jónasar Kristjánssonar í landbúnaði.
Ennnfremur eru í stefnuskrá Framsóknarflokksins athyglisverð atriði um kjaramál. Ber þar hæst tillögu um vísitölu viðskiptakjara. Flokkurinn vill, að vísitölubætur taki mið af breytingum viðskiptakjara.
Framsóknarflokkurinn vill, að launahækkanir verði ekki meiri en 5% 1. marz. Og hann vill, að breytingar á óbeinum sköttum hafi ekki áhrif á verðbótavísitölu launa. Allt eru þetta atriði, sem eiga að geta hamlað gegn verðbólgu.
Spurningin er svo sú, hvort Framsóknarflokkurinn meinar eitthvað með hinum ágætu tillögum sínum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið