Blikur á lofti

Greinar

Útlitið er fremur dökkt á Vesturlöndum um þessi áramót. Því er spáð, að kreppan haldi áfram og víða haldi atvinnuleysi áfram að aukast. Svo virðist sem í fáum löndum hafi stjórnvöld getu eða kjark til að ráðast af nægilegri hörku gegn afleiðingum olíukreppunnar, sem hratt þessu vandræðaástandi af stað.

Þrátt fyrir hrikalega verðbólgu og önnur vandamál Íslendinga, erum við tiltölulega vel settir í samanburði við aðra. Hér hafa stjórnvöld getað og þorað að ráðast í óvinsælar aðgerðir. Og þjóðin hefur sætt sig við tímabundna rýrnun lífskjara, svo að full atvinna megi haldast enn um nána framtíð.

Í þessu felst meginmunurinn á ástandinu hér og í nágrannalöndunum. Þar magnast atvinnuleysið, sem víða er komið yfir 5% og nálgast sums staðar10%. En hér er aftur á móti töluverð umframeftirspurn eftir atvinnu. Verkefnin eru fleiri en hendurnar fá annað. Hér á landi er engin kreppa í augsýn.

Þessi gæfa okkar er þó ekki einhlít. Við erum mjög háðir sveiflum í efnahagsmálum nágrannalandanna. Og ýmislegt bendir til þess,að slíkar sveiflur geti valdið okkur búsifjum á hinu nýbyrjaða ári. Í kreppum hefur verð matvæla oft tilhneigingu til að lækka snögglega og óttast menn, að svo verði um allan heim á þessu ári. Þykir það slæmur fyrirboði, að kjötverð í Bandaríkjunum hefur þegar hrapað. Og þá er eðlilegt, að við spyrjum, hvað verði um verð á fiskinum, sem við flytjum út.

Að undanförnu hefur gengið erfiðlega að halda uppi verði á íslenzkum fiskafurðum á erlendum markaði. Fari svo, að önnur matvæli lækki verulega í verði, er hætt við, að verðið hrapi einnig á fiskinum okkar. Þetta er hættulegasta óvissuatriðið í efnahag okkar á nýja árinu.

Við erum þjóða háðastir umheiminum, ekki sérstaklega vegna kaupa okkar á erlendum matvælum, heldur vegna víðtækra innflutningsþarfa okkar á öllum sviðum. Fyrir allar þessar vörur greiðum við með hornsteini efnahagskerfis okkar, fiskútflutningum. Ef tekjur hans rýrna, fellur annað um sjálft sig. Þá munu ekki nægja þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar. Þá verður að grípa til enn óvinsælli ráðstafana, ef ekki á illa að fara.

Við skulum vona, að svo fari ekki. Við skulum vona, að fiskverðið hangi nokkur nveginn óbreytt. Þá erum við tiltölulega vel á vegi stödd, svo framarlega sem vinnufriður helzt í þjóðfélaginu. Við munum þá fljótlega sjá, að fórnir okkar, þótt nokkrar séu, eru smámunir í samanburði við fórnir nágrannaþjóðanna, sem hafa af pólitískum ástæðum ekki getað gripið til jafnharðra björgunaraðgerða og íslenzk stjórnvöld hafa getað.

Við verðum að bíða og sjá, hvernig þróunin verður. Við erum aðeins að hluta eigin gæfu smiðir í þessum efnum. Við getum forðazt að skapa okkur heimatilbúin vandamál með vinnudeilum eða á annan hátt. En jafnframt erum við berskjaldaðir fyrir afleiðingunum af erlendri kreppu,ef hún fer að magnast um allan helming. Við skulum búast við hinu versta, en vona hið bezta.

Jónas Kristjánsson

Vísir